Úti í hrauninu lá hann …

Ég er að hugsa um að kaupa mér ritsafn Jónasar á morgun. Ég var nefnilega að muna eftir dálitlu, nefnilega léttgreiðslum, þeim mikla lausnara fátækra en bókelskra námsmanna. Sjibbí!!!

Af öðrum skáldum á ég Kristján Jónsson, Stephan G., Þórberg Þórðarson (þó ekki Hvíta hrafna, hvar fæ ég hana?) og Andra Snæ Magnason. Af þessum finnst mér Jónas bestur og því orðið tímabært að ég eignaðist hann. Svo á ég auðvitað Eddukvæðin, raunar með óæskilegri stafsetningunni, fari það og veri.

Einn vinnudagurinn enn

Í vinnunni kom maður að mér með gardínustöng og sagði: Er þetta ekki örugglega veiðistöng? Brandararnir sem ég fæ að heyra í vinnunni …

Annars er fyndið að sjá viðmótsbreytingar kúnnanna gagnvart okkur gjaldkerum (gjaldtæknum jafnvel) eftir að við fengum öryggisvörð í búðina. Þeir eru mjög uggandi þegar þau mæta ísköldu augnaráði varðarins. Fólk þorir ekki einu sinni að rífast lengur, sem er sérdeilis prýðilegt. Enda hefur viðskiptavinurinn nær ávallt rangt fyrir sér.