112258625802755829

Ég mæli með því að lesendur lesi þessar fáu tilvitnanir sem Hreinn Hjartahlýr hefur valið úr gamla testamentinu. Þær segja lengri sögu, ef vel er að gætt.

Annars hafði ég mesta gaman að útvarpsþætti Atla Freys um suðurþýskt jóðl. Þátturinn var jafngóður og efni hans er steikt. Sumsé stórskemmtilegur. Og þessir Rhembræður eru nú meiri kallarnir.

En senn held ég niður í bæ að sjá Sin City. Miðað við hve ánægður ég var með Blökuna get ég vart trúað öðru en að þessi verði betri. Annars er ég eiginlega alveg hættur að fara í bíó. Það kostar einfaldlega of mikið.

Strætó

Rétt í þessu, sem ég kem úr bankanum sé ég mann bíða eftir strætó. Sjálfsagt hefur hann beðið eftir fjarkanum, því þegar tólfan kom hristi hann höfuðið til vagnstjórans til merkis um að hann kæmi ekki með. Svo, þegar það var um seinan, áttaði hann sig á mistökum sínum og hljóp á eftir vagninum, sem þá var kominn of langt í burtu. Eldra fólk en hann gæti beðið í heilan dag án þess að gera sér grein fyrir því að fjarkinn er orðinn að tólfunni. Nýja kerfið er ekki betra en það gamla, en það er hins vegar grunnur að betra kerfi. Og það er vonandi að fólk þurfi ekki of langan aðlögunartíma.

Komandi dagar

Enn er ýmislegt sem mig vanhagar fyrir Spánarför mína eftir sex daga. Ég þarf að kaupa mér buxur, greiða reikningana, sækja pin-númerin mín í bankann og tæma myndavélina. Eins gott er að hafa hraðar hendur svo ég nái þessu nú örugglega. Með tvo vinnudaga framundan og verslunarmannahelgi er best að gera sem mest í dag. Annað frestast fram á þriðjudag eða, í versta tilfelli, fram á miðvikudag.

Ekki man ég eftir einni verslunarmannahelgi sem mér þótti sérlega skemmtileg, nema auðvitað þeirri í fyrra, en þá var ég ekki á landinu. Verslunarmannahelgin er sumsé best þar sem ekki er haldið upp á hana. Eins og í Reykjavík, en þar er best að vera meðan ósköpin dynja yfir. Grey verslunarfólkið vinnur hvort eð er eins og skepnur eins og hverja aðra helgi. Að ég tali ekki um hryllinginn sem það hlýtur að vera að vinna á einhverjum matsölustaðnum í Eyjum.
Hvað fær fólk eiginlega til að ferðast þangað unnvörpum, liggja inni í tjöldum í rigningunni og hlusta á Árna Johnsen? Getur þetta talist eðlileg hegðun, eða eru þetta bara ósjálfráð viðbrögð sextán ára unglinga við fjölda taugaboða sem hlaupa af stað við að heyra minnst á taumlaust fyllerí fjarri gínandi vendi foreldrahúsa? Nei, hvernig sem á þetta er litið finnst mér allar Eyjaferðir álíka mikið anómalí og ef kóngafiðrildi streymdu á Suðurpólinn og mörgæsir lærðu að fljúga, færu til Ástralíu og gætu börn við strútum. Ojbara, en sú hugmynd!