Þvílíkt útsýni!

Nasa heldur áfram að skapa goðsagnir. Þeirra orða verður svo sannarlega minnst þegar fyrsti geimfarinn til að snúa sér við á sporbaugi og skoða jörðina mælti, svo undir tók í alheiminum: Þvílíkt útsýni! Á hann verður án efa minnst í sömu andrá og Neil Armstrong, sem einnig gerðist orðheppinn úti í geimi. Svo sannarlega hefur enginn geimfari síðastliðinna fimmtíu ára sagt neitt í líkingu við þetta áður, og má Soichi Noguchi prísa sig sælan með að hafa skapað sér þvílíkt nafn, þvílíka goðsögn meðal geimfara, að hafa fyrstur manna látið sér detta í hug þessi fleygu orð, sem án efa munu móta kynslóðir komandi geimfara. Mannkynið bíður endurkomu þinnar fagnandi, herra Noguchi, lávarður himinhvolfsins.

Svefnleysi og 18. aldar pönk

Skrýtið að ég sé ekki sofnaður enn. Sérstaklega þar sem ég vaknaði upp af undarlegum draumi með andfælum klukkan átta í morgun þar sem mig dreymdi að ég væri Indiana Jones að slást við heilan her af svörtum köttum. Það verður ekki aftur sofnað eftir slíkt.

Raunveruleg ástæða svefnleysisins hlýtur að vera sú að ég rakst á tablature fyrir Für Elise á netinu og hef ekki getað hætt að spila það. Rétt í þessu spilaði ég það. Og ég er að hugsa um að spila það einu sinni enn fyrir svefninn. Grannarnir geta varla kvartað. Þeir mega bara vera ánægðir með að ég fann ekki Sex Pistols. En hver veit nema Für Elise hafi þótt hin argasta graðhestatónlist á sínum tíma og Beethoven sjálfur álitinn hinn versti pönkari. Ludwig „der Punker“ van Beethoven.