Mó eða pómó?

Ég rakst á gamla gagnrýni Hermanns Stefánssonar um Áhyggjudúkkur á Kistunni. Hann var í það minnsta hrifinn af henni. Hver veit, kannski er ég ekki nógu mikill módernisti/póstmódernisti eða whatever til að fatta svona bókmenntir. Eða, það sem meira er, kannski er ég ekki nógu mikill póstmódernisti til að fatta að maður á ekki að fatta svona bókmenntir? Eða flæki ég kannski málin fullmikið með því að vilja vita hvað ég er að lesa? Kannski á maður ekkert að vita það, heldur gleypa bara við því eins og hverju öðru dópi og sjá eftirköstin. Ef síðasti kosturinn er sá rétti (væri ég póstmódernisti, þá væri enginn kostur réttur, er það?) þá veit ég í það minnsta hvern ég get kært ef ég geng óviðbúið upp að einhverjum og reyni að rúnka honum, vegna einhverra dulrænna áhrifa sem bókin blés mér í brjóst.

Nei, hvern djöfulinn hef ég nú bloggað um!

Bækur og kveðskapur

Keypti aðra bók í dag, Veröld okkar vandalausra, eftir Kazuo Ishiguro. Standist hún væntingar mínar verður hann aldrei kallaður neitt annað af mér en Meistari Ishiguro. Það hefur verið mér mikið heillaspor að kynnast þessum höfundi, og jafnvel þótt allar hinar bækurnar hans reyndust vera eitthvert drasl eða rúnk, þá skipti það engu máli. Svo góð var þessi eina sem ég hef lesið hingað til.

Harpa
bað um sýnishorn af ljóðasmíðum mínum. Mér er bæði ljúft og skylt að verða við því. Ég leyfi mér að birta tvö þeirra fimm ljóða sem ég flutti fyrr í dag, með þeim fyrirvara þó, að ljóðsmíðar mínar einskorðast ekki við atóm, þótt hér birtist engar ofurbragsmíðar:

Óður til ellibelgja
Sú gamla,
nú loks er orðin klikkuð.
Ei vitandi vits,
ekkert hafandi.

Við gætum
varpað henni
fram af kletti,
úr hjólbörum okkar?

Nei.
Hún á betra skilið.
Við skiljum hana eftir
hjá góða fólkinu
á elliheimilinu,
sem dópar hana upp
og lætur hana hlusta
á harmonikkutónlist.

Tækifærisljóð
Að finna viðeigandi orð
yfir það andartak
er þú leist hana fyrst augum
er jafn ómögulegt
og að reyna að hengja sig
án reipis.

Að biðja mann
um að finna viðeigandi orð
yfir það andartak
er hann leit hana fyrst augum
jafngildir því
að reyna að sannfæra mann
sem reynir að hengja sig án reipis
um að lífið sé reipið
sem hann vilji hengja sig í.

En augljóslega eru báðir
nógu desperat til að reyna.

Meiri kveðskap má finna á þessari síðu, sem senn mun vakna úr alltof löngum sumardvala.

Nútímabókmenntir?

Í gær keypti ég mér bókina Áhyggjudúkkur eftir Steinar Braga. Mér fannst ég hafa heyrt ágætishluti um hana og þaraðauki var hún hræódýr. Eftir á að hyggja hefði ég getað sagt sjálfum mér hvað átt var við með setningunni „og innstu hugsunum þeirra lýst“ aftan á kápunni. En ég er kominn talsvert áfram með bókina og hyggst klára hana.
En eru þetta bókmenntir nútímans? Eru þær allar svona pervers? Er þetta ekki rökrétt þróun eftir þær 101 Reykjavík og Þetta er allt að koma hans Hallgríms Helga og rúnkbókmenntir Mikaels Torfa? Ég skal ekki segja. En ef allar bækur héðanaf eiga að vera lýsandi fyrir „innstu þrár okkar allra“ þá held ég mig bara við eldri bókmenntir.
Annars á ég eftir að gefa Braga Ólafs og Hermanni Stefáns séns, en fyrst flestallt sem ég kaupi mér eftir samtímahöfunda fjallar um rúnk og brund er ég ekki aldeilis viss um að ég þori því.