Bah, ég er gamall!

Ég er með kviðslit, það er ég sannfærður um. Er hættur að geta unnið nema sitjandi, og það er bannað að sitja í vinnunni. En ég fæ sjálfsagt undanþágu þegar komið er í ljós hvað raunverulega háir mér. Hvað sem þetta er þá er ég ekki hrifinn.

Ég er eitthvað svo búinn á því, finnst ég nærri því útbrunninn á unga aldri. Hægt og bítandi verð ég líkamlega meira eins og gamalmenni með magasár og kviðslit. Andlega færist ég nær því að bölva déskotans unga fólkinu og nýju tímunum, sem aldrei munu jafnast á við þá gömlu.

Senn kemur sá dagur að ég fái mér göngustaf, til að kóróna tvítuga ellilífeyrisþegann sem ég verð orðinn. Senn öskra ég pirrað „HA?!“ í hvert sinn sem á mig er yrt, sama hvort ég heyrði það eða ekki. Senn mun ég eingöngu lifa á lyfjaskömmtum, rúgbrauði og lýsi og tala um að opna fyrir útvarpið.

Þetta er hryllileg framtíð að hugsa sér svona rétt fyrir tuttugasta og fyrsta afmælisdaginn. En svo fer sem verða vill. Í það minnsta þarf ég að láta huga að þessu kviðsliti eða hvaðþaðnúer.

Hin nýja kveðja

Það er víst orðið til siðs að heilsa aldrei neinum nema með hraustu „Здравствуйте“. Raunar sætir furðu að allir gera þetta nema sjálfur tungumálakötturinn, hann Síberíu-Björn. Þessu здравствуйтеæði hef ég ákveðið að svara með harðskeittu плохо. Það ætti að þagga niður í þessum wannabe rússum.

Hana nú hefur mér tekist hið ómögulega: Að sameina tvö stafróf í einu orði. Er það ekki alþjóðaglæpur eða eitthvað?

Ærumeiðingar

Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni hefur verið gert að greiða 11 milljónir króna í skaðabætur fyrir ærumeiðandi ummæli um Jón Ólafsson (ekki þennan Jón Ólafsson). Þetta kemur mér á óvart. Ekki vegna þess að ég trúi því ekki að Hannes hafi sagt eitthvað viðlíka, hann hefur nú sagt ýmislegt. Heldur vegna þess að augu mín hafa svo einblínt á ritstuldarmálið. Enn sem komið er hefur það verið Hannesi í hag og svo kemur þessi dómur eins og þruma úr heiðskýru lofti, beint í hnakkann á honum.

Ekki ætla ég mér að réttlæta neitt fyrir ummæli Hannesar, en það er grimmt að þurfa að veðsetja húsið sitt vegna ummæla. Megi þetta vera öllum áminning um að vaða ekki uppi með alvarlegar ásakanir sem þeir hafa engar sannanir á.