Af Köttum og sjálfum mér

Einn er sá siður með Köttum […] að láta hár og skegg vaxa […] Og ekki er það fyrr en þeir hafa fjandmann að velli lagðan, að þeir afklæðast þessu andlitsgervi […] Uppi yfir blóði og bardagafeng svipta þeir þessum hjúpi af ásjónu sinni og þykjast þá fyrst hafa goldið andvirði upphafs síns.
-úr Germaníu Cornelíusar Tacitusar.

Jamm, yfir sjálfu hræi hins fallna fjandmanns! Í morgun sameinaðist ég Köttum í anda er ég sneið af mér tæplega mánaðargamalt prófaskeggið. Lokaáfanga sex ára stríðsins er lokið. Ef til vill geri ég upp við það síðar en í bili ætla ég bara að hleypa hröfnunum að hræinu. Kannski fá mér bjór. Raunar ekkert kannski með það.