Stór dagur

Elva og Stígur giftu sig við fallega athöfn í Fríkirkjunni í gær. Hljómsveitin Ménage à Trois sá svo um dinnertónlist í veislunni á Borginni og mun það hafa lukkast ágætlega þrátt fyrir litlar sem engar æfingar. Enda er það tríó sem segir sex …

Í veislunni hitti ég margt gott fólk, þar á meðal fólk sem maður hittir alltof sjaldan. Sumu fólki heilsaði ég ekki af gömlum (og gagnkvæmum) vana. Leið svo dagurinn þar frameftir götunum, hitti heilu ógrynnin af fólki sem ég hafði ekkert talað við síðan í MR. Karl Ágúst, Sunnu Maríu, Önund Pál, Birgi Pétur og síðast en ekki síst glaðværan náunga sem sagði í sífellu „Hey, Arngrímur!“ en hafði yfirleitt litlu við að bæta. Ég er ekki alveg viss hvort ég eigi að þekkja hann.

En gærdagurinn var í flesta staði mjög velheppnaður og skemmtilegur, þótt ég hefði vísast komist upp með að drekka eilítið minna.