Hans og Grétu syndrómið

Ég var óskaplega stoltur af sjálfum mér í dag. Mér nefnilega tókst að klára nærri heilt páskaegg nr. 4. En svo áttaði ég mig á því að hér búa fleiri og því er líklegra að einhver annar hafi étið eitthvað af þessu. Þegar ég var lítill gat ég étið þrjú svona en það er liðin tíð.

Einhverjir voru að tuða undan þessu súkkulaðibrjálæði á netinu og birtu eitthvert óttalegt tilfinningaklám í ætt við „it’s hard to be a little girl when you’re not“, einsog páskaeggjaát sé ekki spurning um hvorutveggja öfgar og val. Líklega eru Íslendingar fyrstir í heimi til að vera allt í senn feitastir, sveltastir og fátækastir allra. Bestir í öllu því einsog öllu öðru. En í hugarheimi sums fólks er semsagt ekki hægt að gefa börnum súkkulaði nema með kalkúnasprautu. Sjálfsagt mætti kalla það Hans og Grétu syndrómið.

Fyrir nokkrum árum máttu ekki vera púkar ofan á páskaeggjum frá Nóa samkvæmt einhverjum prestinum því eggin væru táknmyndir sjálfs kristindómsins og jafngilti gjörningurinn því djöfladýrkun. Annar séra viðhafði svipuð orð um Draugasetrið á Stokkseyri en komst þar raunar nær guðfræðilegri teóríu en hinn. Fátt má út af bera gagnvart djöflatrúnni og nú munu fermingarbörn vera svívirt af öllum þorra guðlausra Íslendinga. Hinn kúgaði meirihluti lætur ekki að sér hæða.

Ekki þarfyrir að umræðan á Íslandi hafi ekki alltaf verið snargeðbiluð. Meiraðsegja Þóru Arnórsdóttur tókst ekki að bjóða sig fram til forseta án þess að vera kölluð strengjabrúða í valdaráni kommúnista. Voða sem fólk getur verið lítið í sér, hve mikil ósköp sem oft er erfitt að vera til fyrir öllum þessum kommúnistum, trúleysingjum og páskaeggjum. Sjálfsagt er það ekki svo fjarri Hans og Grétu syndróminu heldur að telja sér trú um að allir í kringum mann séu vondir og eigi skilið að vera skutlað í ofninn.

Miðbær Árósa
Og nú með ótrúlegri tengingu við Hitler má svosem nefna að ég skrapp til Danmerkur á dögunum (einhverra hluta vegna er ég alltaf á einhverjum þvælingi). Þar rétt svo tókst mér að missa af fámennum útifundi nasista sem aflaði sér um tífalt fleiri ósáttra gesta og skarst í brýnu þeirra í milli og svo lögreglunnar sem reyndi að verja þá fyrrnefndu. Lögreglustjórinn í Árósum lýsti yfir í kjölfarið að betra hefði verið að láta nasistana bara eiga sig.

Stundum velti ég fyrir mér að gera einmitt það hvað kommentakerfi vefmiðlanna snertir, en ég held nú að hatursorðræðan skjóti því sterkari rótum sem hún er hunsaðri. Ef ekki er hægt að tala um páskaegg, fermingar eða forsetaframboð án þess að einhver sé berlega orðaður við samsæri eða ofbeldi þá er líklega lítil von á vitrænni umræðu næstu kynslóðirnar, og því síður sem orðræða fábjánanna er látin óátalin.

Sem raunar minnir mig á píslarsögu Krists: í henni virðast nær allir tjá sig einsog fábjánar svo lyktar með að maður einn er tekinn af lífi og fyrir því höldum við upp á páskana enn þann dag í dag. Kannski eru páskarnir þá eftir allt saman bara ágæt hátíð til að annaðhvort troða í sig páskaeggjum eða grenja undan páskaeggjaáti annarra og eipa almennt einsog fábjáni. En því miður er enginn hörgull á þessu síðastnefnda aðra daga ársins svo einhverjum kann að þykja tengingin hæpin. Hitt verð ég að játa að páskarnir hafa verið með ágætasta móti þetta árið, ekki síst fyrir það að líklega eru þetta fyrstu páskarnir á þessari öld sem ég er í fríi. Oft getur munað um minna.