109199213684040031

Hvað síðustu færslu varðar hafði ég að sjálfsögðu mínar eigin hugmyndir um hvaðan vindurinn kæmi þegar ég var lítill. Áleit ég að hreyfing skapaði vind (sbr. þegar þú hleypur, þá heyrirðu í vindinum) og að vindurinn skapaði svo meiri hreyfingu. Í upphafi var allt kyrrt, svo kom fyrsti maðurinn og lærði að hreyfa sig. Þá skapaðist vindur sem skapaði svo meiri hreyfingu, t.d. hreyfingu sjávar.
Hvar endar þetta? Ég taldi að keðjuverkandi áhrif ættu sér stað og á endanum væri ekki hægt að fara út úr húsi fyrir endalausum stormi. Að sjálfsögðu endar þetta á heimsendi, sé miðað við endalausar lógarytmískar afleiðingar hreyfigetu fyrsta mannsins.

Ég virðist hafa fæðst bjartsýnn.

109199180924032196

Fátt þykir mér skemmtilegra en alþýðuskýringar. Alþýðuskýringar eru, þegar menn vantar svör, hafa engin og búa þau til. Sem dæmi má nefna iðnaðarmennina í Grafarholtinu, sem furðuðu sig á hve seint verk þeirra gekk. Að lokum urðu menn sáttir á að þar væri álfabyggð (!) og að téðir álfar væru ekki par ánægðir með stóriðjuna. Var tíðindum þessum svo lekið beint í fjölmiðla, án þess einu sinni að hugsað hafi verið út í þá „mass-hysteríu“ sem brotist gæti út. Hugsanleg ástæða þess að engin hjaðningaél brutust út; að fólk rauk ekki upp til handa og fóta, rændi búðir og át líffæri hvers annars, gæti verið sú að samningar náðust við álfana um að færa byggð sína svo byggja mætti þar mannabústaði.

Skyldar alþýðuskýringum eru barnaskýringar. Dæmi um barnaskýringar er þegar nokkur börn voru spurð hvaðan vindurinn kæmi. Eitt barnið hugsaði sig aðeins um og sagði svo: „Frá trjánum“ Þegar það var svo spurt hvers vegna það héldi það, sagði barnið spekingslega: „Því þegar þau hreyfa sig, þá er vindur.“ Hér er komið röklegt samhengi og þó ekki sé þetta beinlínis rétt, er svarið ekki langt undan.

Munurinn á barnaskýringum og alþýðuskýringum felst einkum í tvennu: Alþýðuskýringar eru aðeins á vegum fullorðinna og yfirleitt er líka minna vit í þeim.

Dropinn holar steininn þykir mér ágætt máltæki, ekki bara vegna þess að ég vinn í Ikea, þar sem mannsandinn bugast smám saman af allri þeirri geðillsku sem fellur á starfsmenn eins og beljandi stórfljót. Það er aðeins fagurfræðilegt mat mitt á þeim ágæta vinnustað en, hvað máltækið varðar, á það við um fleiri hluti en Ikea.