109199180924032196

Fátt þykir mér skemmtilegra en alþýðuskýringar. Alþýðuskýringar eru, þegar menn vantar svör, hafa engin og búa þau til. Sem dæmi má nefna iðnaðarmennina í Grafarholtinu, sem furðuðu sig á hve seint verk þeirra gekk. Að lokum urðu menn sáttir á að þar væri álfabyggð (!) og að téðir álfar væru ekki par ánægðir með stóriðjuna. Var tíðindum þessum svo lekið beint í fjölmiðla, án þess einu sinni að hugsað hafi verið út í þá „mass-hysteríu“ sem brotist gæti út. Hugsanleg ástæða þess að engin hjaðningaél brutust út; að fólk rauk ekki upp til handa og fóta, rændi búðir og át líffæri hvers annars, gæti verið sú að samningar náðust við álfana um að færa byggð sína svo byggja mætti þar mannabústaði.

Skyldar alþýðuskýringum eru barnaskýringar. Dæmi um barnaskýringar er þegar nokkur börn voru spurð hvaðan vindurinn kæmi. Eitt barnið hugsaði sig aðeins um og sagði svo: „Frá trjánum“ Þegar það var svo spurt hvers vegna það héldi það, sagði barnið spekingslega: „Því þegar þau hreyfa sig, þá er vindur.“ Hér er komið röklegt samhengi og þó ekki sé þetta beinlínis rétt, er svarið ekki langt undan.

Munurinn á barnaskýringum og alþýðuskýringum felst einkum í tvennu: Alþýðuskýringar eru aðeins á vegum fullorðinna og yfirleitt er líka minna vit í þeim.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *