Jæa

Þá er ritgerð mín „Um etýmólógíu latneskra og germanskra orða: Orðsifjafræðileg athugun á latneskum og germönskum orðum og textum, með hliðsjón af eldri rannsóknum innan fræðigreina sögulegrar- og samanburðarmálfræði“ tilbúin.

Þá er að prófarkalesa. Ég vona að hún sé ekki of léleg því ég þarf að skila henni á morgun.

Getraun

„Lúdowig ther snéllo, thes wísduames fóllo,
er óstarrichi ríhtit ál, so Fránkono kúning scal“.
Á hvaða tungumáli er þessi lofgjörð og hvað þýðir hún; í hvaða bók birtist hún fyrst, hver orti og hvenær? Bókarverðlaun í boði fyrir besta svar. Berist fleiri en eitt rétt svar vinnur sá fyrsti til að svara. Svör sendist hingað.
Lágmark fyrir þátttöku er að geta þýtt textann yfir á íslensku og, þá væntanlega, að geta sagt á hvaða tungumáli hann er.

Fleiri svona móment!

„Ég hélt satt að segja ekki, og vona að mér fyrirgefist að ég segi það, að svona skítlegt eðli væri inni í hæstvirtum forsætisráðherra, en það kom greinilega hér fram.“
-Ólafur Ragnar Grímsson
„Og það skal þá standa að Davíð Oddsson sé slík gunga og drusla að hann þori ekki að koma hér og eiga orðastað við mig.“
-Steingrímur J. Sigfússon
„Þetta dettur engum í hug nema Samfylkingunni, sem er eins og afturhaldskommatittsflokkur.“
-Davíð Oddsson

Múltílíngval

Þetta ætla ég að stúdera um jólin, svo ég kunni að minnsta kosti stafrófið. Það háir mér stundum að vera ekki læs á grísku. Til dæmis núna. Á næsta ári hef ég svo hugsað mér að nema ítölsku við MH, grísku og rússnesku við MS. Það er viss áskorun sem felst í að læra tvö ný (en áþekk) stafróf á sama tíma.

Ítalskan á ég ekki von á að verði erfið, enda kunni ég hana eitt sinn, endur fyrir löngu. Latínan er svo eitthvað sem ég hef verið of latur við að læra.

Annað sem ég þarf að kynna mér, og ég skammast mín hálfpartinn fyrir að hafa ekki enn gert, er blæbrigðamunur á dönsku, sænsku og norsku. Það er leiðinlegt að afgreiða svía í Ikea, ekki kunnandi annað en dönsku.

Þegar ég næ meiri leikni í þýsku hyggst ég kynna mér hollensku og slá helsta hollvini hollenskrar tungu þarmeð við.

Miklar ambísjónir, en verður eitthvað af þessu öllu saman? Það ætla ég að vona!

110173997752809794

Hah! Ekki ómerkari maður en sjálfur Bill Clinton, fyrrv. Bandaríkjaforseti og frelsari sundraðrar Júgóslavíu, leit við á auvirðilegri síðu minni um tvöleytið í nótt. Ég get a.m.k. haldið því fram meðan þessi heldur áfram að þykjast vera hann.

Ég uppgötvaði mér til hryllings, eftir að hafa átt það í tvö ár, að eintak mitt af Marðar-Eddu var meingallað: Tvær blaðsíður í A-L bindinu voru óaðskiljanlega fastar saman. Fyrir vikið neyddist ég til að gera mér ferð niður í þá prýðisstofnun Eddu-miðlun, að fá nýja bók. Sú nýja er öllu snjáðari og verr farin en mín gamla, þrátt fyrir að vera glæný. Ótrúlegt að útgefandinn fari verr með bækurnar sínar en ég.

Einhverjum hluta af mér finnst leiðinlegt að eiga ekki lengur sömu orðabók og amma mín gaf mér í afmælisgjöf. Ég veit ekki hvort það telst eðlilegt að vera svona tilfinningalega tengdur bókum, þá sér í lagi orðabókum, og sérstaklega ef ekkert sentímentalítet er skrifað á fremra saurblaðið. Amma mín vissi betur en að krota eitthvað í bókina mína. Ég þoli ekki hverskonar krot í bókum, veri það yfirstrikunarpennakrot eða hamingjuóskir með afmælisdaginn.

Jæa, nú færi ég ísskápinn inn í herbergi og hlekkja mig við tölvuna. Tveir dagar í ritgerðarskil.

Senn dey ég

Ég er með óbærilega verki jafnt í baki sem í kviðarholi, og ég veit, að dauðinn er á næstu grösum. Það er því til lítils annars tilgangs að blogga, en að gefa veraldlegar eigur mínar, þeim sem þurfa þykir, post mortem Aquilami.
Þórður fær því Þórbergsbækurnar mínar og Silja fær kisuna mína. Afgangurinn fylgir mér í kumlið, þarmeðtalið hross mitt, söðull og sverð. Ég hef enn ekki ákveðið dánarorð mín, en allar góðar tillögur eru vel þegnar. Svo lengi sem þær eru töff.

110166503977440529

Arngrímur segir, að sá er ekki spakur, er rífst um sjálfsagðan hlut, dylur sannleikann í ræðu sinni svo málefnið virðist ekki eins sjálfsagt og beitir honum svo fyrir sig sem rökum um að hann hafi rétt fyrir sér.

Slíkur spekingur varð á vegi mínum í gær og gortaði hann mikið af því, að hafa lagt mig að velli í rökræðu, um gangaþörf Siglfirðinga. Meistaralega gert líka, þar eð ég vissi ekki að vegurinn milli Akureyrar og Siglufjarðar er ófær betri part vetrar. Það fékk ég ekki að vita fyrr en ég hafði sagt að hann gæti bara andskotast til að keyra téðan veg.

Ekki datt honum í hug að segja það strax og forðast deilu um keisarans skegg.