110173997752809794

Hah! Ekki ómerkari maður en sjálfur Bill Clinton, fyrrv. Bandaríkjaforseti og frelsari sundraðrar Júgóslavíu, leit við á auvirðilegri síðu minni um tvöleytið í nótt. Ég get a.m.k. haldið því fram meðan þessi heldur áfram að þykjast vera hann.

Ég uppgötvaði mér til hryllings, eftir að hafa átt það í tvö ár, að eintak mitt af Marðar-Eddu var meingallað: Tvær blaðsíður í A-L bindinu voru óaðskiljanlega fastar saman. Fyrir vikið neyddist ég til að gera mér ferð niður í þá prýðisstofnun Eddu-miðlun, að fá nýja bók. Sú nýja er öllu snjáðari og verr farin en mín gamla, þrátt fyrir að vera glæný. Ótrúlegt að útgefandinn fari verr með bækurnar sínar en ég.

Einhverjum hluta af mér finnst leiðinlegt að eiga ekki lengur sömu orðabók og amma mín gaf mér í afmælisgjöf. Ég veit ekki hvort það telst eðlilegt að vera svona tilfinningalega tengdur bókum, þá sér í lagi orðabókum, og sérstaklega ef ekkert sentímentalítet er skrifað á fremra saurblaðið. Amma mín vissi betur en að krota eitthvað í bókina mína. Ég þoli ekki hverskonar krot í bókum, veri það yfirstrikunarpennakrot eða hamingjuóskir með afmælisdaginn.

Jæa, nú færi ég ísskápinn inn í herbergi og hlekkja mig við tölvuna. Tveir dagar í ritgerðarskil.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *