Tvenns konar mælskulist

Það er blóðugt að horfa upp á Steingrím J. hakka í sig aðstoðarmann forsætisráðherra aðeins degi eftir að Ólafur Teitur brytjaði Sigurjón M. Egils í spað í Íslandinu. Munurinn er að hjá Steingrími J. var málflutningurinn pjúra röksemdarfærsla, byggð á staðreyndum. Hjá Ólafi Teiti var það öðru fremur yfirvegun og tækni, meðan fréttastjórinn barmaði sér eins og gylta að berjast í hakkavélinni. Menn sem geta rökrætt þannig þurfa ekki sannleikann. Hann kemur málinu ekkert við.

Ljóð dagsins

Af því enginn gat svarað því hver orti ljóð gærdagsins birti ég annað ljóð eftir sama skáld. Takið eftir því hvað hann hittir naglann á höfuðið:
Dagblöðin
Úr blöðunum hjómast ei hugsun til neins,
mig hryllir við þvílíku sargi,
því málið og stíllinn og efnið er eins:
svo andlega meinþýfður kargi.
Nú ætti hringurinn að fara að þrengjast um skáldið. Ef enginn getur þetta birti ég þriðja og síðasta ljóðið á morgun. Það ættu allir að þekkja.