Milli svefns og vöku

Fólk mér ókunnugt heldur áfram að heilsa mér úti um hvippinn og hvappinn og sumir spjalla jafnvel við mig um daginn og veginn. Það er því nokkuð ljóst að fólk tekur mér svona kunnuglega, oft haldandi að ég sé annar en ég er, nema mér sé farið að förlast. Síðari kostinn vil ég síst hugsa um, þótt ég telji hann líklegri.

Ég svaf í um tvo tíma í nótt. Brátt verð ég eins og Al Pacino í kvikmyndinni Insomnia. Líkast til myndi ég hella mér út í róttækar patentlausnir eins og svefnlyf og svarta andlitsgrímu, hefði ég ekki verið sérstaklega varaður við því fyrir nokkru, að slíkt hefur vanabindandi áhrif.

Eftir grátlega langa andvökunótt mætti ég í vinnuna klukkan hálftíu. Klukkan ellefu gæddi ég mér á Ikeapylsu í morgunverð. Hún bragðaðist eins og hrossabjúga. Með öllu, bæði hráum og steiktum. Það kætti mig ekki. Það gerðu hins vegar kaffibollarnir fimm sem ég drakk í dag.

Í fyrramálið held ég af stað til Hornafjarðar til að vera viðstaddur kistulagningu og jarðarför langömmu minnar. Síst hlakka ég til kistulagningarinnar. Tel slíkar athafnir vera hinn mesta óþarfa. Ekkert verður því um blogg fyrr en í fyrsta lagi á sunnudaginn. Ef ég verð þá í nokkru skapi til að blogga þá.

Umhugsunarefni dagsins: Er sögnin að ryksuga eina rétta sögnin yfir þann verknað? Hugleiðið það.

Ljóð dagsins:

Hótel Jörð

Tilvera okkar er undarlegt ferðalag.
Við erum gestir og hótel okkar er jörðin.
Einir fara og aðrir koma í dag
því alltaf bætast nýir hópar í skörðin.

Og til eru ýmsir sem ferðalag þetta þrá,
en þó eru margir sem ferðalaginu kvíða.
Og sumum liggur reiðinnar ósköp á,
en aðrir setjast við hótelgluggann og bíða.

En það er margt um manninn á svona stað
og meðal gestanna’ er sífelldur þys og læti.
Allt lendir í stöðugri keppni’ um að koma sér
og krækja sér í nógu þægilegt sæti.

En þó eru margir sem láta sér lynda það
að lifa’ úti’ í horni óáreittir og spakir,
því það er svo misjafnt sem mennirnir leita að
og misjafn tilgangurinn sem fyrir þeim vakir.

En mörgum finnst hún dýr þessi hóteldvöl
þó deilt sé um hvort hótelið sjálft muni græða.
En við sem ferðumst eigum ei annars völ,
það er ekki um fleiri gististaði að ræða.

Að vísu eru flestir velkomnir þangað inn
og viðbúnaður er gestirnir koma’ í bæinn.
Og margir í allsnægtum una þar fyrst um sinn,
en áhyggjan vex er menn nálgast burtferðardaginn.

Þá streymir sú hugsun um oss sem ískaldur foss
að allt verði loks upp í dvölina tekið frá oss,
er dauðinn, sá mikli rukkari, réttir oss
reikninginn yfir það sem skrifað var hjá oss.

Þá verður oss ljóst að framar ei frestur gefst
né færi á að ráðstafa nokkru betur.
Því alls sem lífið lánaði dauðinn krefst
í líku hlutfalli’ og Metúsalem og Pétur.

– Tómas Guðmundsson.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *