Diskar, skálar, ryksogun, ítarefni

Ætli nokkrum öðrum en mér finnist það merkilegt að íslendingar hafa sérorð yfir djúpa diska meðan aðrir tala um skálar eða í besta falli súpuskálar.

Talandi um skálar, þá eru brjóstastærðir víst mældar í „skálum“. Ætli það sé til marks um myndlíkingareðli mannsins? Tja, það er spurningin.

Varðandi íhugunarefnið sem ég skildi lesendur eftir og sjálfsagt enginn íhugaði, þá er til önnur sögn yfir að ryksuga, en það er að ryksjúga. Það er meira vit í að sjúga en að suga, þar sem sugur sjúga, en suga ekki. Hins vegar teljast svona málvandanir yfirleitt bera þess merki að vera snobbaðar. Það er athyglisvert (ekki athyglivert). En svona málvandanir eru heldur tilgangslausar. Hverjum er t.d. ekki sama hvort talað er um mexíkana eða -kóa?

Ítarlesefni dagsins: Grein Sverris Jakobssonar um skyrmótmæli, pistill Hreins Hjartahlýs um hátíðarræðu Halldórs Ásgrímssonar og Norðanátt Hermanns Stefánssonar, sem blæs ferskum andvara um lukta líkgröf Bloggheima. Mælt er með því að síðastnefnda sé lesið frá upphafi.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *