112187072071378598

Ekki skil ég hvers vegna fólk vill láta börnin sín heita Christopher eða Christofer, þegar Kristófer er þegar til. Þaðan af síður skil ég hvers vegna Mannanafnanefnd samþykkir svona obskúra rithætti. Enn undarlegra þykir mér Danielsnafnið. Er Daníel ekki nógu gott?

Mannanafnanefnd telur nægan rökstuðning til heimildar vera að einhvern tíma hafi verið til íslenskir ríkisborgarar sem hétu þessum nöfnum. En það hlýtur að vera vegna þjóðernis. Voru þessir menn ekki danskir eða af dönskum ættum? Ætti Mannanafnanefnd þá ekki að heimila nöfnin Robert og Fischer (Róbert er þegar til, en kann að vera að það nægi ekki öllum)? Ef Omar (Ómar) Sharif flyttist hingað til lands, ætti þá að kalla nöfnin íslensk og heimila þau til nafngiftar? Það er nú það. En hitt er svo annað, að Tristan Alexander Fischer Sharif yrði líkast til nýjasta tískunafnið.

Það er alltaf gaman að fara í bankann, sötra kaffi og fylgjast með ankannalega stráknum á þjónustuborðinu reyna að svara öllum símhringingum sem heyrast í húsinu, meðan maður bíður eftir afgreiðslu. Á stefnuskrá hjá mér núna er að eiga villtan ágúst og eyða vetrinum í þjáningarfullar afborganir, meðan ég læt minnka yfirdráttinn kerfisbundið. Ég get því sagt að ég hlakki meira til mánaðamóta en til jóla. Það er nú raunar ekkert nýtt. Og yfirleitt eru verstu mánaðamót ársins milli nóvember og desember, einhverra hluta vegna.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *