Mótmælandi Íslands

Að sjálfsögðu var ég límdur við skerminn að horfa á Mótmælanda Íslands áðan. Helgi Hóseasson er merkilegur maður og ekki er útséð um hvernig Íslendingar munu koma til með að spjara sig án hans þegar karlinn hrekkur upp af á endanum. Í það minnsta missir Langholtsvegurinn allan status meðal gatna í Reykjavík.

Það er einfalt mál að með lítilli lagasetningu er hægt að heimila Hagstofunni að afskrá skírn fólks. Ætli þvermóðsku ríkisins megi ekki útskýra þannig að þeir óttist fjöldaafskírnir fyrir bragðið. Sá ótti er ekki ástæðulaus. Æ fleiri taka þá afstöðu með hverju ári sem líður að það sé brot á mannréttindum að skíra varnarlaus ungabörn í mögulegri óþökk þeirra. En kirkjan veit sem víst er að best er að ná þeim á unga aldri. Og hver annar en ríkið er varðhundur kirkjunnar.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *