Að pakka

Hvers vegna er það þegar maður pakkar að maður finnur sig í hvívetna knúinn til að fylla ferðatöskuna af meira og meira drasli með hverri stund sem líður, út allan daginn. Þarf ég svona mikið af dóti? Það er ekki eins og ég sé að flytja úr landi.

Annars eru það yfirleitt mestu nauðsynjarnar sem enda seinast í töskunni, nefnilega tannburstinn, rakvélin og sjampóið. Er annars ekki svolítið erfitt að flokka nauðsynjar á þennan hátt? Nærbuxur eru til að mynda ómissandi, en þær má raunar alltaf kaupa. Öðru máli gegnir um annan og dýrari fatnað. Þá á ég ekki við mikilvægi þeirra, heldur öðru fremur aðgengi. Bróðir minn lenti til dæmis í þónokkrum erfiðleikum með að finna sér stuttbuxur á Ítalíu og ekki batnaði leitin þótt þörfin væri gríðarleg.

En fyrir utan ferðageislaspilara, einn disk, myndavél og tvær bækur tek ég aðeins með mér nauðsynjar. Ólíkt þeim sem drösla heilu hljóðfærunum og steríógræjum með sér. Ekki skil ég þá sem því nenna, en það er ágætt að þeir geri það. Við strákarnir tökum hins vegar einföldu leiðina og höfum með okkur i-Pod og ferðaútvarp. Það sparar okkur bæði tíma og vesen.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *