Migið á gröfina

Eins og von var að er misviturlegt hvað fólk hefur um R-listamál að segja á netinu. Síst get ég þó tekið undir þessi orð: „Ég er viss um að flestir eru sammála mér í því að það er mikill missir að manni eins og Degi úr borginni og nær væri að hlusta á hann heldur en að gera grín að honum“. Right.

En svona í alvöru talað er megnið af því sem ég hef lesið á netinu lítið annað en óbilgjarnt þvaður og grenj yfir því að VG séu fýlupúkar. Vísa á greinina hans Ármanns, Hinum að kenna, í því sambandi. Besti punkturinn þar er án efa þessi: „Hvernig væri að sýna nú einu sinni reisn?“ En það er nú það. Af öllum virðast Sjálfstæðismenn ætla að koma best út úr borgarumræðunni. Og þeir hafa Gísla Martein í fararbroddi. Sem þýðir að brátt mun fólksflótti af landsbyggðinni heyra sögunni til.

En að sjálfsögðu mun Samfylkingin vilja klína því á VG eins og öðru. Mín spá er sú að ef Sjálfstæðisflokkurinn hlýtur yfirburðakosningu verður það VG að kenna. Ef Sjálfstæðisflokkurinn vinnur aftur á móti lítið verður það Samfylkingunni að þakka. En það skiptir ekki máli hverjum er um að kenna eða hver byrjaði, aðeins hvernig við endum það. Og það virðist ætla að enda á hópmigi á gröfina.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *