Fuglabjargið

Fór veikur heim úr vinnunni í miðri afgreiðslu. Það var mátulegt á mig. Ég veit ekki hvers vegna það var mátulegt á mig, en það hlýtur að hafa verið það. Allt sem mig hendir er mátulegt á mig, a.m.k. ef sumir eru hafðir til álitsgjafar.

Þannig er skap mitt þessa stundina að ég vil heyra sem minnst af íslenskri umræðu og unnt er. Þessar smáborgaralegu og illþolanlegu Baugs-, Heimdallar- og stjórnmálaumræður eru eins fjarri lund minni og hugsast gæti. Stundum finnst mér eins og ég búi í apakletti. Stundum eins og á hálfvitahæli.

Þessu lítillega tengt hefur einhver sem kallar sig Slikk ákveðið að ég hafi aldrei verið skráður í Sjálfstæðisflokkinn, útfrá gamalli bloggfærslu minni. Það gerir hann á þeim forsendum að hann hafi sjálfur oft fengið sms frá Heimdalli. Þetta er honum velkomið að gera. Það breytir því samt ekki að ég var skráður í Sjálfstæðisflokkinn, að mér óforspurðum, í kosningum Heimdallar 2003.

Ekki get ég neitað því að mér hafi orðið nokkuð bilt við því að flokkaaðild mín sé orðin að umræðuefni mér ókunnugra manna á netinu. Þessi síða er EKKI miðill til að vitna til um nein málefni, þá sér í lagi þau er varða pólitíska umræðu. Það þykir mér ágæt regla að biðja um leyfi áður en vitnað er í menn á opinberum vettvangi. Hver veit þá nema leyfið fáist. En heimildarlausar vísanir í hversdagslíf mitt eru vinsamlegast afþakkaðar, svo það sé á hreinu.

Annað klukk

Emil hefur klukkað mig. Ég veit ekki hvort ætlast sé til þess að maður svari klukki tvisvar, en gamla klukkið var svo niðurdrepandi að mér finnst ég skyldugur til að bæta við. Og það er nú einu sinni eins og maðurinn sagði: Bloggið er sjálfhverft. Raunar er allur tjáningarmáti sjálfhverfur á sinn hátt, því með því að tjá sig gerir maður jú ráð fyrir því að einhver nenni að hlusta.

1. Ég stundaði nám í Langholtsskóla fyrsta mánuð (eða fyrstu tvo mánuði) skólagöngu minnar. Þaðan fluttist ég í Laugarnesskóla og var þar frá seinni hluta haustannar 1990 til vorsins 1997.

2. Einhvern tíma þarna á milli, líkast til árið 1994, þegar ég var í níu ára bekk, tók ég kveðskaparlistina upp á arma mér, tók að dýrka Davíð Stefánsson frá Fagraskógi og lærði nokkur kvæða hans utan að, þar á meðal Nirfilinn og Konuna sem kyndir ofninn minn. Þau kvæði kann ég ekki lengur. Ein minna elstu minninga sem næsta upprennandi stórskáld þjóðarinnar, að því er ég sjálfur taldi á þeim tíma, á sér stað í æfingatíma hjá kennaranema. Hún gaf okkur frjálsan tíma og ég tók til við að berja saman rímur. Skyndilega verð ég þess var að hún stendur yfir mér og spyr mig hvort ég sé skáld. Þá segist ég vera næsti Davíð Stefánsson frá Fagraskógi, nema ég heiti Arngrímur og sé frá Vík (Vík fyrir Reykjavík).

3. Á þessu kveðskaparfylleríi las ég Ísland ögrum skorið eftir Eggert Ólafsson. Pabbi spurði mig hvers vegna ég læsi hann, hann hefði nú verið svo lélegt skáld og þaraðauki ekki heppnaðri en svo, að hann hafi oltið úr árabát og drukknað á Breiðafirði. Síðan þá hef ég verið alveg sammála þessu, enda þótt þetta með árabátinn sé kannski ekki sagnfræðilega nákvæmt.

Framhald í færslunni á undan.

112793370182944935

4. Þegar ég var níu ára horfði ég á mér yngri strák kúka á loftræstistokk ofan á Klóakstöðinni við Kirkjusand svo kúkurinn þyrlaðist yfir hann allan. Ég rétt slapp undan skothríðinni og hef blessunarlega líka sloppið við öll sálræn eftirköst.

5. Ég vil alltaf hafa puttana í öllum málum og það að ég taki við stjórnartaumunum í ýmsum málum hefur síaukist með árunum. Fyrir vikið á ég oft annríkt og í sumum tilvikum þýðir annríki mitt afslöppun annarra. Þannig finnst jafnan öllum aðiljum það best.

Sultarólin hert

Mikið er ég feginn því að blóðhundar Bandaríkjanna hafi ákveðið að slökkva á prenturum sínum þegar þeir eru ekki að prenta sína útgáfu mannkynssögunnar í þeim. Ég er líka handviss um að fórnarlömb fellibyljanna tveggja gráti hamingjutárum til dýrðar herrum sínum, sem hvergi mega aumur sjá á öðrum og öllu fórna fyrir hagsmuni heildarinnar.

Efst á Baugi

Baugsfeðgar létu einkaspæjara fylgjast með ferðum Jóns Geralds og konu hans, segir herra Sullenberger sjálfur. Í hvaða tilgangi sagði hann ekki. Einnig hefur komið fram að Jónína lá undir Styrmi og gat með honum lögfræðiaðstoð Jóns Steinars, þrátt fyrir að óvinveittir Sjálfstæðismenn hafi í andstöðu sinni hangið yfir henni eins og ufsagrýlur andskotans, enda þótt þeir hvergi kæmu nærri samsærinu. Samsærinu um hvað veit enginn. En ljóst má vera, ef eigi var áður, að Baugsmál þetta er hinn mesti sirkus.

Snilld auglýsinga

Merkileg þessi dagblaðaauglýsing frá Betra baki. Þar eru myndir af ýmsum gerðum rúma og svo mynd af Siggu Beinteins, með nafni hennar letruðu undir. En það er hvergi vitnað í æðislega reynslu Siggu af rúmunum, eða hinum kyngimögnuðu Spring Air Never Turn dýnum. Það er bara myndin og nafnið.
Þetta er náttúrlega bara snilld, ósnortið land í hinum víðáttumikla heimi auglýsinga. Þess verður ekki lengi að bíða uns auglýstir verða risajeppar við hliðina á mynd af Helgu Möller í leðurjakka, eins og ódýr og óviðeigandi gæðastimpill. Eða auglýsingar frá Office One þar sem Hemmi Gunn sést í námunda við einstaklega fínan heftara.
Málið er nefnilega einfalt: Þeir sem ekki kaupa eins rúm, jeppa og heftara og Sigga Beinteins, Helga Möller og Hemmi Gunn kannski eiga, þeir eru ekki töff. Því hver hefur efni á að taka áhættuna á að þessi glæsimenni eigi ekki slíka dýrgripi?