Kjerulf ormstunga

Ég keypti í dag bókina Völuspá fornritanna og ýmiskonar athuganir eftir E. nokkurn Kjerulf, frá árinu 1945. Mér segir svo hugur um að ég hafi dottið óafvitandi í lukkupottinn og muni geta haft hina mestu skemmtan af þessari bók. Einnig segir mér svo hugur um að íslenskufræðingum enn þann dag í dag sé í nöp við höfund hennar. Því til útskýringar vísa ég í formála:

Jeg var satt að segja á báðum áttum um það, hverju svara skyldi, því að eins og ástatt er nú um „íslenzk fræði“, er við marga erfiðleika að etja. Verstu erfiðleikarnir stafa ekki frá sjálfu viðfangsefninu, þó að þeir sjeu vitanlega miklir, en öllu heldur frá mönnum, sem stunda og hafa stundað þessi fræði; og fleira mætti nefna …

… En erfiðast er aðeiga við hleypidóma þá og firrur, sem tekist hefir að koma inn hjá mönnum, og telja þeim trú um að væri vísindaleg sannindi, þó að rjetta nafnið sje raunverulega: „vísindaleg ósannindi“, því að eins og kunnugt er þarf opt langt mál til þess að hrekja ósannindi, þó að þau sje e. t. v. aðeins örfá orð. En því er nú ekki að heilsa í þessu tilfelli. Orðin eru mörg …

… Jeg hefi reynt að fara eptir þeim reglum, sem menn, er nú á tímum fást við að ráða eitthvert torskilið mál, hvort heldur er í náttúrufræði eða öðrum fræðum (nema íslenzkum) temja sér. Venja þeirra er sú að athuga fyrst, hvað það sje, sem ráða þurfi – hvað það sje, sem geri málið flókið – og reyna að finna sökudólgana. Ennfremur að athuga, hvernig á þeim geti staðið; hvort þeir geri vart við sig annarsstaðar og sje algengt eða sjaldgæft fyrirbrigði o. s. frv. Að því loknu gera menn tilraunir (experiment), sem samkvæmt skynsamlegum ályktunum mætti ætla, að gæti leyst úr flækjunni. Opt þarf margra tilrauna við, en þær eru metnar, og þær eru teknar gildar, eða þeim er hafnað, eptir árangrinum, sem fengist hefir af þeim. Fáist sá árangur af þeim, að það, sem var óskiljanlegt verði skiljanlegt og í samræmi við önnur þekkt atriði málsins, þá telja menn, að þær hafi komið að liði og að gátan sje leyst. Komi tilraunirnar þessu ekki til leiðar, þá fitja menn upp á ný og gera aðrar tilraunir, eða menn gefast upp við að ráða gátuna.
Hitt, sem er siður íslenzkra fræðimanna, að gera annaðhvort engar tilraunir, eða skýra rangt frá því, sem þær hafa leitt í ljós … það þekkist hvergi, nema í „íslenzkum fræðum“.

Þessi náungi er nastí. Hann hefur vonandi gert sér grein fyrir því að með þessu dissaði hann ekki ómerkari menn en Finn Jónsson og Sigurð Nordal! Það er varla hægt að hugsa sér meira diss, en að útskýra vísindalegar aðferðir í þaula, og halda því svo blátt áfram fram að störf heilar stéttar vísindamanna gangi í berhögg við viðurkennda aðferðafræði og þær jafnvel ljúgi vísvitandi sjálfum sér og rannsóknum sínum til framdráttar. Þetta eru stór orð. En hver er þessi E. Kjerulf?

Af verkum Ishiguro, fáanlegum sem ófáanlegum

Bókin Veröld okkar vandalausra (Once We Were Orphans) eftir Kazuo Ishiguro reyndist mér nokkur vonbrigði, varla verð þeim mikla meistara sem skrifaði Óhuggandi (The Unconsoled), einhverja þá mögnuðustu bók sem ég hef lesið. Það eru að vísu ljósir punktar í bókinni, og það gladdi mig að uppgötva að aðalpersónan, Banks, er sama tilfinningalega og samskiptalega úrhrakið og Ryder úr Óhuggandi. Þýðingin á bókinni er síður en svo til fyrirmyndar og innsláttur svo klaufskur að hann tekur út yfir allan þjófabálk. Nema það teljist réttlætanlegt að tala sitt á hvað um Mei Li og Mi Lei sem sömu persónu. Það er hreint út sagt til skammar hvað fólk þarf alltaf að flýta sér við þýðingar, eins og þær þarfnast mikillar viðkvæmni og nákvæmnisvinnu.
Það vekur áhyggjur mínar, í ljósi þess að bók sem Veröld okkar vandalausra hafi verið svo hroðalega þýdd á þeim tveimur árum sem liðu frá því hún fyrst kom út þar til hún kom út á íslensku, að nýjasta bókin, Slepptu mér aldrei, skuli eiga að koma út á íslensku sama ár og hún er skrifuð. Þýðingin, gera útgefendur greinilega ráð fyrir, verður að sama skapi góð og minni tíma er eytt í hana. Að öðru leyti hlýtur tilkoma nýrrar bókar að vera mér fagnaðarefni.
Bókaforlagið Bjartur myndi svo gera vel með að þýða fyrstu bók hans, A Pale View of Hills, og endurútgefa Dreggjar dagsins (The Remains of the Day) og Í heimi kvikuls ljóss (An Artist of the Floating World). En slíkrar menningarlegrar viðleytni er erfitt að vonast eftir í þessum grimma heimi. Þannig er það nú bara.

Kaffi

Áðan sem endranær á morgnana langaði mig í kaffi og fór því í kaffiteríu skólans. Þar sem stelpurnar þennan daginn kunnu ekki að laga kaffi tók ég það að mér, enda þótt ég kynni það ekki sjálfur. Mig langaði semsagt svo mikið í kaffi að ég vippaði mér yfir afgreiðsluborðið og tók til við að laga kaffi. Það vantaði bara á mig lambhúshettuna. Kaffið heppnaðist annars prýðilega og ég fékk það ókeypis. Ég er að drekka það núna. Ég veit ekki hvað ég geri af mér ef ég fæ ekki kaffið mitt á morgnana. Kaffi.

Bretar og víkingar

Ég veit ekki hvort mér á að finnast það plebbalegra að Bretar segi Danelaw en ef þeir rembdust við að segja Danalög. Slíkt er vanþakklæti heimsins, að vér Norðurlandabúar flissum að þeim, hvurt heldur sem þeir gera.

Annars gætir alltaf ákveðins hroka í Bretum þegar þeir tala um víkingaöldina. Þeir falla nefnilega alltaf í þessa Rómaveldis – Germanarökvillu, að lítilsvirða hina meðan þeir éta svo sjálfir börnin sín, þar eð þeir sjálfir voru helmingi verri en víkingarnir í sínum eigin menningar- og landvinningareisum gegnum aldirnar. Nema víkingarnir hafi verið það slæmir að meðan Bretar létu magnþrungna reiði guðs dynja á heiðingjunum hafi þeir hugsað um lítið annað en hverjum þeir ættu að nauðga, þvínæst drepa og ræna næst.

Nei, áreiðanlega hafa þeir lítið breyst síðan þá, líkt og vér. Sjálfsagt stóðu þeir með heykvíslirnar sínar og stanguðu úr sínum feiknarmiklu tanngörðum og vændu víkinga um blóðrúnk (e. bloody wankerism), og þá er ekki nema von að hinir síðarnefndu hafi orðið sneyptir og farið að brytja þá niður.

Mannkynið mun aldrei bíða þess bætur

Ég sé á RSS-listanum mínum að bloggari nokkur hefur eytt færslu um það hvers vegna nafnið Helmut er svona fyndið. Hví? Mig sem alltaf hefur þyrst í að vita svarið! Þetta er nærri því eins og að standa frammi fyrir svarinu við lífsgátunni og fá heilablóðfall, einmitt þegar svarið er innan seilingar. Eins og maður fúlsar nú ekki við heilablóðföllum annars.

Af verkum Ishiguro, fáanlegum sem ófáanlegum

Bókin Veröld okkar vandalausra (Once We Were Orphans) eftir Kazuo Ishiguro reyndist mér nokkur vonbrigði, varla verð þeim mikla meistara sem skrifaði Óhuggandi (The Unconsoled), einhverja þá mögnuðustu bók sem ég hef lesið. Það eru að vísu ljósir punktar í bókinni, og það gladdi mig að uppgötva að aðalpersónan, Banks, er sama tilfinningalega og samskiptalega úrhrakið og Ryder úr Óhuggandi. Þýðingin á bókinni er síður en svo til fyrirmyndar og innsláttur svo klaufskur að hann tekur út yfir allan þjófabálk. Nema það teljist réttlætanlegt að tala sitt á hvað um Mei Li og Mi Lei sem sömu persónu. Það er hreint út sagt til skammar hvað fólk þarf alltaf að flýta sér við þýðingar, eins og þær þarfnast mikillar viðkvæmni og nákvæmnisvinnu.

Það vekur áhyggjur mínar, í ljósi þess að bók sem Veröld okkar vandalausra hafi verið svo hroðalega þýdd á þeim tveimur árum sem liðu frá því hún fyrst kom út þar til hún kom út á íslensku, að nýjasta bókin, Slepptu mér aldrei, skuli eiga að koma út á íslensku sama ár og hún er skrifuð. Þýðingin, gera útgefendur greinilega ráð fyrir, verður að sama skapi góð og minni tíma er eytt í hana. Að öðru leyti hlýtur tilkoma nýrrar bókar að vera mér fagnaðarefni.
Bókaforlagið Bjartur myndi svo gera vel með að þýða fyrstu bók hans, A Pale View of Hills, og endurútgefa Dreggjar dagsins (The Remains of the Day) og Í heimi kvikuls ljóss (An Artist of the Floating World). En slíkrar menningarlegrar viðleytni er erfitt að vonast eftir í þessum grimma heimi. Þannig er það nú bara.