Smásaga

Ég var að byrja á smásögu eftir tæplega tvö ár af engu. Á hálftíma tókst mér að koma frá mér tæpri blaðsíðu óhreinskrifaðri. Þá vissi ég ekki meir. Ég veit aðeins það, að það sem prýðir þessa blaðsíðu, því þarf að dreifa jafnt og þétt yfir fleiri blaðsíður. Þá er ekki gott að skrifa línulega, eins og ég geri. Þá er heldur ekki gott að hafa ekki hugsað upp meira en grunninn, eins og ég hef gerst sekur um núna sem oft áður. Þá er betra að ég agi sjálfan mig örlítið og leyfi sögunni að segja mér sjálfa sig með tímanum, frekar en að rembast við að lemja hana til og spýta henni út, eins og ég hef of oft gert. Ég hef allan þann tíma sem ég vil til að klára hana og ég ætla að fara varlega að henni svo ég skemmi hana ekki. Skemmst frá að segja er ég gríðarlega stoltur af afrakstrinum enn sem komið er. Mikið hljóma ég eins og Ágúst Borgþór.