Salka Valka

Ég skrapp í Borgarleikhúsið að sjá Sölku Völku í gærkvöldi. Ég var nokkuð ánægður með sýninguna, þótt ýmislegt vantaði kannski upp á, en um það er ég líklegast síðasta alræðisvaldið þar sem ég hef ekki lesið bókina. Hinsvegar verður þess líklegast ekki langt að bíða að ég geri það, nú þegar áhugi minn á sögunni hefur vaknað. En það fyrsta sem ég gerði eftir að ég kom heim af sýningunni var að rífa Heimsljós frekjulega úr hillunni og hella mér ofan í hana. Hún byrjar vel.

Bendi annars á ágætan leikdóm um Sölku Völku. Þar koma fram ýmsir góðir punktar, en sá fyndnasti og ef til vill mest valid er þessi: „Bogesen og Steinþór eru leiknir nánast eins og hefði ef til vill mátt ganga lengra og láta þá renna saman í eitt“. Hugmyndin er mjög fyndin og póstmódernísk, en sannleikurinn er sá að vissulega voru þeir einsleitir gegnum leikritið, en það eiga þeir ekki að vera. Aftur á móti á manni að finnast sem ekkert hafi breyst í lokin þegar Steinþór hefur tekið við af Bogesen.

Jahá. Ég er ekki frá því að yfir mig sé smámsaman að hellast Laxnessmanía. Mun fárra hollara úngum mönnum nútildags.

5 thoughts on “Salka Valka”

  1. Kannski. Annars finnst manni ótrúlegt að hugsa til barna sem heita Álfgrímur. Maður fær það alltaf á tilfinninguna um menn sem heita Álfgrímur að þeir hafi fæðst gamlir.

  2. Jamm, ég er ekki frá því að það sama sé að henda mig. Ég var að lesa bækling Peter Hallberg um sögur kallsins til ’55, og finn hvernig ég allt í einu fyllist ofsa gagnart því að lesa þær allar! Undir mínu belti ber ég aðeins Sjálfstætt fólk og svo Vefarann.

  3. Á hálfnaða Gerplu og Íslandsklukku uppí skáp líka. Ég hafði gaman að Gerplu, man ekki afhverju ég lagði hana frá mér. Hún er í fínum húmor, jafnvel svo að maður hlæji upphátt.

Lokað er á athugasemdir.