Идите к черту!

Hafið þið einhvern tíma staðið sjálf ykkur að því að þýða texta, hálfvitalega texta, jafnvel úr rússnesku, þar sem fyrir koma hálfvitalegar samræður á borð við: Hvar er vegabréfsáritun yðar? Í vegabréfinu mínu. Aha, þarna er vegabréfsáritun yðar! En frábært! og hafandi dröslast gegnum framandi stafróf í óþjálli, slitinni orðabók með míkróskópletri, jafnvel útgefnu af Romanov-forlaginu, að öðru hverju andskotans orði. Og komist svo að því, þegar þið hafið lokið við þýðinguna – nótate bene á fíflalegustu samræðum allra tíma – að öll orðin eru gefin á blaðsíðunni við hliðina, og að déskotans orðabókin var fullkomlega óþörf. Ja, helvíti væri þá gott að kunna að formæla almættinu á rússnesku! Á svona stundum duga nefnilega engar venjulegar formælingar.

Orð dagsins

Er rosmhvalur, í tilefni af þessari frétt.

Forliðurinn rosm á sér hliðstæður bæði í nýnorsku (rossmal/rossmar) og gamalli dönsku (rosmer), og rekur ættir aftur til fornháþýska orðsins ros(a)mo, sem merkir ‘rauður eða rauðbrúnn litur’ samkvæmt Orðsifjabók Ásgeirs Blöndal, og vísar því til litar rostungsins.

Forliðurinn rost í því orði er kominn úr norsku og ber svipaða merkingu og rosm. Orðið er skylt fornháþýska orðinu rost, eða ‘ryð’, og er ekki notað lengur. Líklega þekkja lesendur best enska samsvörun orðsins, rust, sem einnig merkir ‘ryð’.

Rimman um eylandið Ísland

Líklega hef ég verið sjö ára þegar ég „vann“ mínar fyrstu deilur. Þá var ég á skóladagheimili og deilurnar snerust um hvort Ísland væri eyja eða ekki. Rök hans voru þau að Ísland héti Ísland en ekki Íseyja, auk þess að hann væri eldri en ég. Mín rök voru þau, að bróðir minn segði að Ísland væri eyja, og hann væri eldri en við báðir. Mótherji minn, sem ég man ennþá að hét Ari, sneri sér í örvæntingu til fóstrunnar og beitti hana sömu rökum og mig. Nei, það er rétt hjá Arngrími, sagði hún. Ég man hvað ég var hissa. Ég hafði aldrei haft rétt fyrir mér áður (raunar vissi ég oft meira en bróðir minn, en hann vann samt alltaf allar deilur, meðþví hann var eldri, stærri og sterkari). Líklega var það eftir þetta að ég fann fyrst fyrir þörfinni að hafa alltaf rétt fyrir mér.

Hitt var svo annað, að ég vissi vel að það er ekki alltaf góð hugmynd að vita meira en einhver sem er eldri en maður sjálfur. Svo ég var ekki lengi að yfirgefa svæðið, skynjandi hvernig andrúmsloft var að myndast inni á dagheimili. Hann réðist raunar ekki á mig. Það hefði verið út í hött. Í þá daga fannst mér þó ekki sjálfsagðari hlutur í heiminum en þeir eldri lumbruðu á þeim yngri eftir hentisemi.

Haraldur Pjátur og Valdimar

Vondi náunginn í Harry Potter ku valda ómældri skelfingu í hjarta sérhvers mannsbarns, við það eitt að hann sé nefndur á nafn. Sjálfur gæti ég aldrei óttast einhvern sem heitir Valdimar. Sér í lagi þegar hann virðist eingöngu herja á börn og gamalmenni, en ég er hvorugt. Hljómar eiginlega eins og hálfgerður wanker, er það ekki?

Mín fyrsta katólska ferming

Í Piacenza átti bróðir minn vin sem hét Ricardo Anselmi, og fjölskylda hans var vinafólk okkar. Einn daginn var okkur boðið í fermingu Ricardos, vegna þess að sá siður er tilhafður innan rómversk-katólsku kirkjunnar, að börn fermist 8 til 9 ára. Ég var þvísemnæst ótilfáanlegur að fara, þartil faðir minn sagði mér að Ricardo yrði í svo flottum búningi, að ég þyrfti að koma og sjá það. Undireins gerði ég ráð fyrir því að hann hefði einhvers konar ofurmannshettu og skikkju, og var eins ólmur að fara eins og ég hafði áður verið þver.

Þegar ég sá Ricardo ganga til altaris til að fermast, varð ég fyrir miklum vonbrigðum að sjá að hann var bara í jakkafötum. Svo ég þráspurði föður minn hvenær hann færi í búninginn. Sjálfsagt hefur faðir minn gert ráð fyrir því að hann yrði í einhvers konar gullinskrýddri katólikkamúnderingu, líkt og prestarnir, og ekki kunnað að útskýra það neitt nánar fyrir mér. Vissi hann hinsvegar að Ricardo yrði í jakkafötum, hefði hann getað sagt það og ég hefði skilið (og ekki viljað koma).

Ég man það enn að ég varð tiltölulega fljótt saddur í fermingarveislunni sem fylgdi – svosem ekki að furða, það voru eitthvað um fimm réttir bornir á borð – og að þegar við bræður og Ricardo yfirgáfum borðið, þá sat allt fullorðna fólkið þar enn og át. Og var étandi í hvert sinn sem ég heimsótti borðstofuna. Það át þartil veislan var búin. Ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar að þannig eigi að borða, en aldrei getað tileinkað mér það. Íslendingar eru venjulega sparir á matinn þegar kemur að öðrum en sjálfum sér.

Ég upplifði aðra katólska fermingu seinna um æfina, en það var löngu seinna og á Íslandi. Í minningunni er hún aldrei eins ekta.