Mín fyrsta katólska ferming

Í Piacenza átti bróðir minn vin sem hét Ricardo Anselmi, og fjölskylda hans var vinafólk okkar. Einn daginn var okkur boðið í fermingu Ricardos, vegna þess að sá siður er tilhafður innan rómversk-katólsku kirkjunnar, að börn fermist 8 til 9 ára. Ég var þvísemnæst ótilfáanlegur að fara, þartil faðir minn sagði mér að Ricardo yrði í svo flottum búningi, að ég þyrfti að koma og sjá það. Undireins gerði ég ráð fyrir því að hann hefði einhvers konar ofurmannshettu og skikkju, og var eins ólmur að fara eins og ég hafði áður verið þver.

Þegar ég sá Ricardo ganga til altaris til að fermast, varð ég fyrir miklum vonbrigðum að sjá að hann var bara í jakkafötum. Svo ég þráspurði föður minn hvenær hann færi í búninginn. Sjálfsagt hefur faðir minn gert ráð fyrir því að hann yrði í einhvers konar gullinskrýddri katólikkamúnderingu, líkt og prestarnir, og ekki kunnað að útskýra það neitt nánar fyrir mér. Vissi hann hinsvegar að Ricardo yrði í jakkafötum, hefði hann getað sagt það og ég hefði skilið (og ekki viljað koma).

Ég man það enn að ég varð tiltölulega fljótt saddur í fermingarveislunni sem fylgdi – svosem ekki að furða, það voru eitthvað um fimm réttir bornir á borð – og að þegar við bræður og Ricardo yfirgáfum borðið, þá sat allt fullorðna fólkið þar enn og át. Og var étandi í hvert sinn sem ég heimsótti borðstofuna. Það át þartil veislan var búin. Ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar að þannig eigi að borða, en aldrei getað tileinkað mér það. Íslendingar eru venjulega sparir á matinn þegar kemur að öðrum en sjálfum sér.

Ég upplifði aðra katólska fermingu seinna um æfina, en það var löngu seinna og á Íslandi. Í minningunni er hún aldrei eins ekta.