Hughreysting skyggna mannsins

„O, I am fortune’s fool!“ Við vitum hvernig þér líður, Rómeó, þú táningur, þú ástarglópur og morðingi frænda unnustu þinnar. Líttu þó á björtu hliðarnar því hlutirnir gætu verið verri. Unnusta þín gæti tekið upp á því að byrla sér ólyfjan í von um að þú komir og nemir hana meðvitundarlausa á brott, í stað þess að koma sjálf til þín. En það kemur varla til nema hún fyrirfinni klerk sem talar í vafasömum ráðagerðum, og hversu margir þannig eru í Verónsborg? Það skyldi þó aldrei verða að hún rambi á einn slíkan í fyrstu tilraun til að leita sér hjálpar? Æ, örlögin! Ó, eymdin! En alltaf að líta á björtu hliðarnar, því ef svo fer og þú ferð varhuga af skilaboðum klerksins um að Júlía lifi, þá má í það minnsta drepa vonbiðil hennar á undan sjálfum sér. Það eru réttindi þín sem skáldverk. Vertu þó viðbúinn undir eitt síðasta sjokk.