Að kveldi liðnu

Upplestrakvöldið gekk afar vel, utan einn og einn leiðindakall sem gjammaði. Einn þeirra sagði sögu af kettinum Meistara, sem hvarf fyrir nokkru en er nú kominn til síns heima. Betur hefði ég trúað kötturinn vildi vera týndur áfram.

Talandi um það, þá las Davíð einmitt upp smásögu sína „Ég er ekki týnd“. Mér fannst hún prýðisgóð, laus við öll fyrirsjáanleg twist.
Emil las upp ljóð, sem von var að, en einnig smásögu sína „Skuggaverur“. Ég verð að játa að um leið og ég heyrði minnst á flugvél var sagan ónýt fyrir mér. Kannski vegna þess ég var einmitt að fikta við sama mótíf sjálfur. Það þarf heldur ekki að vera að endirinn sé öllum jafn augljós. Langa ónefnda ljóðið er held ég of langt. Þyrfti einhvernveginn að brjóta það niður.
Kári las upp sín stykki, þarmeðtalið glænýtt ljóð sem ég man ekki hvað hét, eitthvað tengt snjó. Það fannst mér eitt það besta sem ég hef heyrt eftir hann, svo og auðvitað „Að byrja“ og „Reykvísk kvöldstemning“.
Hildur var jafnvel betri en síðast ég heyrði í henni. Hún las nokkur ljóð sem ég hafði ekki heyrt áður, svo og skemmtilegu afbökunina á Tímanum og vatninu. Því miður var það helst hún sem lenti í áðurnefndum köllum, kannski einmitt vegna þess hún var eina konan (?), fyrir utan svo auðvitað tónlistarkonuna Lay Low, sem kom mér reglulega á óvart.
Hallur náði salnum sem fyrr með kersknislegum prósaljóðum sínum (sbr. „ertu að horfa á brjóstin á mér?“ – „hvaða brjóst?“). En raunar missti ég af stórum hluta númersins „Að lokum“ vegna ófyrirséðrar en nauðsynlegrar salernisferðar.

Sjálfur reið ég á vaðið og tókst ágætlega að skila mínu held ég. Ekki eins og á Babalú síðast, þar sem stemningin var eins og í líkhúsi (hef svosum aldrei kíkt inn í leikhús (villa, leyfum henni að haldast), svo maður veit ekki …). Skúli og Nína komu að hlusta, alveg án þess ég myndi eftir að hafa sagt þeim frá þessu, sem var þó vitaskuld meiningin, skítugu Kópavogsbúarnir Erlendur og Helgi komu og einnig. Svo fannst mér ég sjá hið alsjáandi Rafauga sitja við gluggaborð, en afréð að nálgast það ekki. Stundum er ef til vill betra að halda raunheiminum aðskildum frá netheimum. Hvað hefur maður svosem að segja?

Minni svo enn og aftur á ljóðgreiningarkeppnina. Fjör fer að færast í leikinn, ófyrirséðustu túlkanir komnar, fjórða vísbending væntanleg um síðdegisbil á morgun. Engar reglur um hve oft má giska.

Af Myndunum

Ég vek athygli á því fyrir áhugasama að ég hef nú bætt tveimur frásögnum við fyrri færslu Mynda af Laugarneshverfi, veturinn 1990-1991. Þær eru raunar nátengdar, sagan af því þegar kötturinn kom til skjalanna og þegar óveðrið skall á Reykjavík í apríl 1991.

Myndafærslurnar eru einu færslurnar á þessari síðu sem munu taka sífellum viðbótum og betrumbótum eftir því sem fram líður og ég man meira. Ég hef aukinheldur skapað sérstaka undirsíðu fyrir þær hér. Þannig má lesa þær allar línulega án þess að þurfa að fletta gegnum skjalasafnið, hafi nokkur áhuga á því.

Ég hef ákveðið að skrifa Myndirnar alla leið til vorsins 1997, í það minnsta, og klára þannig endurminningar mínar úr barnaskóla. Hver veit nema ég skrifi líka um gagnfræðaskólaárin, með hliðsjón af yfirvonandi ríúnjoni. Kannski skrifa ég líka um menntaskólaárin í sumar. Efast samt um það, það er svo nálægt í tíma að það gæti reynst mér erfitt að vera hreinskilinn, og þá er betur heima setið.

Í síðasta skipti vil ég svo árétta við lesendur þessarar auðmjúkustu allra bloggsíðna annarsvegar að ljóðgreiningarkeppnin er enn í fullum gangi, hinsvegar að mæta á ljóðakvöld á Café Rósenberg klukkan níu í kvöld, hvar yðar einlægur les nýtt efni úr væntanlegri bók sinni. Hér má finna nánari upplýsingar.