Af Myndunum

Ég vek athygli á því fyrir áhugasama að ég hef nú bætt tveimur frásögnum við fyrri færslu Mynda af Laugarneshverfi, veturinn 1990-1991. Þær eru raunar nátengdar, sagan af því þegar kötturinn kom til skjalanna og þegar óveðrið skall á Reykjavík í apríl 1991.

Myndafærslurnar eru einu færslurnar á þessari síðu sem munu taka sífellum viðbótum og betrumbótum eftir því sem fram líður og ég man meira. Ég hef aukinheldur skapað sérstaka undirsíðu fyrir þær hér. Þannig má lesa þær allar línulega án þess að þurfa að fletta gegnum skjalasafnið, hafi nokkur áhuga á því.

Ég hef ákveðið að skrifa Myndirnar alla leið til vorsins 1997, í það minnsta, og klára þannig endurminningar mínar úr barnaskóla. Hver veit nema ég skrifi líka um gagnfræðaskólaárin, með hliðsjón af yfirvonandi ríúnjoni. Kannski skrifa ég líka um menntaskólaárin í sumar. Efast samt um það, það er svo nálægt í tíma að það gæti reynst mér erfitt að vera hreinskilinn, og þá er betur heima setið.

Í síðasta skipti vil ég svo árétta við lesendur þessarar auðmjúkustu allra bloggsíðna annarsvegar að ljóðgreiningarkeppnin er enn í fullum gangi, hinsvegar að mæta á ljóðakvöld á Café Rósenberg klukkan níu í kvöld, hvar yðar einlægur les nýtt efni úr væntanlegri bók sinni. Hér má finna nánari upplýsingar.