Um tilgangsleysi tilfærslu vökva milli drykkjarhæfra íláta

Já, þið lásuð rétt. Hvers vegna ætli mönnum þyki svona óheflað að drekka úr þeim ílátum sem drykkir eru keyptir í? Eina réttlætingin fyrir notkun glasa úr sú að annað sé argasti barbarismus. Ekki veit ég hvurslags réttlæting það er eða hvaðan hún kemur, en nú verður breyting á! Ég ætla að teygja skilgreiningu frávikshegðunar í þessu smæsta allra samfélaga til andskotans og drekka kaffið úr könnunni héðanaf. Ég laga alltaf hálfa könnu í senn, svo það verður fróðlegt á að líta. Hið sama gildir svo um aðra þá drykki sem ekki til stendur að deila. Undanþegnir drykkir eru mjólk og gos í tveggjalítraumbúðum.

Þetta verður bylting, ég finn það á mér. Höfnum viðteknum siðum, venjum og gildum! Höfnum firringunni! Höfnum skorðum samfélagsins á rétti okkar til frjálsra lifnaðarhátta! Komið er nýtt þjóðfélagsmódel! Guð er dauður! Lifi byltingin! Fuck the system!

12 thoughts on “Um tilgangsleysi tilfærslu vökva milli drykkjarhæfra íláta”

  1. Samkvæmt Guðbjarti jarðfræðikennara er ekki sniðugt að drekka úr áldósum. Þá safnast áljónir saman í kringum munninn á þér og..tjah, festast þar eða eitthvað. Svo að Guð hjálpi þér drengur ef þú færir ekki dósabjórinn yfir í glas! 😉 Svo máttu heldur ekki nota naglalakk eða aseton, það fer beinustu leið í miðtaugakerfið,að sögn Gubba sæta. En það er önnur saga…

  2. Guðbjartur greinilega hafnar kerfinu, fyrst hann er ekki hrifinn af áli. Heyrst hefur að Valgerður beinlínis éti það, svo varla getur Gubbi talist annað en rebel. Það erum við báðir, hvor á sinn veginn.
    Já, kerfið, það lætur ekki að sér hæða. Tveir menn berjast fyrir réttlæti hvor í sinni skotgröfinni, en gera sér ekki grein fyrir að þeir skjóta aðeins hvor annan. Slíkur er máttur kerfisins, að allt andóf verður óhjákvæmlega að þversögn við sjálft sig, en kerfið stendur eftir þegar reykinn lægir, ávallt óréttmætur sigurvegari sérhverrar hildar er háð er í nafni réttlætis.
    Ó, vei þessu kerfi!

  3. Mikið rétt hjá Gubba sæta, dósir eru ógeð. Það vita náttúrulega allir sem hafa smakkað góða mjöði að ílátið skiptir heilmiklu fyrir bragðið, það skiptir ekkert síður máli í hvaða ílátum er bruggað heldur en úr hvaða efnum drykkirnir eru. Til dæmis eru flestir drykkir alveg ágætir í gleri – ef þeir eru ágætir til að byrja með – og því oft algjör óþarfi að færa þá úr glerflöskum – en ódrekkanlegir úr áldósum, eitthvað sem hægt er að bjarga með góðu glasi.

  4. Já, ég veit að auðvitað er það alveg rétt og satt með bannsettar áldósirnar. Fyrir því sting ég upp á að glergerð verði helsta stóriðja Íslands héðanífrá. Glerver í sérhvert krummaskuð!

  5. Það verður spennandi að sjá þá firringu og glundroða sem ríkja mun á austurlandi þegar áljónir fara að hópa sig saman í okkar tæru vatnsbólum, og óhjákvæmilega lenda í hvaða drykkjaríláti sem nota skal til vatnsneyslu. En eftir þennan lestur Arngrímur þá treysti ég því að þú sért í hópi þeirra sem opnar mjólkurfernuna „hinu megin“.

  6. Nei, sjáðu til, það er óhentugt ílát. Þess vegna drekk ég það beint af könnu, í stað þess að vera alltaf að snobba fyrir einhverjum bollum.
    Annars sýnist mér sem ég geti ekki varist ríkjandi viðmiðum samfélagsins öllu lengur. Sjálfsagt verð ég senn hýddur á Austurvelli og látinn drekka úr glasi frammi fyrir alþjóð, í refsingarskyni fyrir róttækar hugmyndir mínar.

  7. Gerðu bara það sem þér finnst betra. Það ætti að vera svona nokkurn veginn alltílæ. Annars er nú hálfógeðslegt að drekka úr dósum svona ef pælt er í því, maður veit aldrei hvaðan þær koma eða í hverju þær hafa lent, svo setur maður bara beran munninn á alltsaman.. Samt drekk ég oft og ötullega úr dósum. Málið með kaffibolla er bara að þeir eru margir hverjir svo ósköp skemmtilegir að ég myndi ekki tíma að leggja þeim og drekka beint úr könnunni. Auk þess sem ég myndi brenna mig illa nema kannan væri orðin köld og þá kaffið með…
    Biðst afsökunar á þessu. Svona fara prófin með mann.

  8. Hehe, færslan öll og svör mín við vísindalegum athugasemdum lesenda ber glöggt merki minnar eigin prófasturlunar 🙂
    Annars er það alveg rétt sem komið hefur fram hér að ofan um áldósirnar. Og enn hef ég ekki lagt í kaffikönnuna …

  9. Reyndar er mælt með því að færa drykki á borð við bjór og gos úr upprunalegum ílátum sínum, þar eð að til þess er ætlast. Framleiðendur setja nefnilega of mikið gos í drykkina, til þessa að magnið verði rétt þegar búið er að hella drykknum í glas. Þessvegna er of mikil kolsýra í dósinni eða glerinu, og drykkurinn því ekki eins og hann á að vera.
    Mjög gott dæmi um þetta er Egils Appelsín. Prófið að drekka það úr dós eða flösku annars vegar og glasi hinsvegar. Þið munuð sannfærast um að gildi samfélagsins eru ekki til staðar að ástæðulausu.

Lokað er á athugasemdir.