Svefnleysi og Bogart

Aldeilis fór Kisa illa með mig í nótt, hélt mér vakandi til tæplega sjö í morgun. Alltaf í þann mund að ég var að fara að sofna, þá hafði hún skyndilega margs konar aðkallandi þarfir. Loks hafði ég leyst úr þeim öllum og gafst færi á að sofna. Svo gerist það klukkan hálfníu að ég hrekk upp við að kattarskömmin er að gera þarfir sínar á vinnutöskuna mína (sem betur fór ekki tölvutöskuna, sem verður vinnutaskan mín héðan af). Ég snarhentist upp úr rúminu, greip köttinn í heilagri reiði og grýtti skepnunni út úr herberginu, en þó ekki án sára. Hún hafði með sér stóreflis stykki úr hönd minni og háði það mér nokkuð við störf í dag. Er kominn á þriðju grisju. Mín mistök samt, ég læsti nefnilega herberginu í nótt svo kötturinn ylli engum usla frammi á gangi.

Til vinnu mætti ég ósofinn og lamur eins og eftir þriggja daga götuslagsmál við einhvurja ekkisens ólátabelgi. Tók þó fljótt gleði mína aftur er ég sló upp Bogart-myndum í draugamyndinni af Gegni (hann liggur niðri þar til á mánudag). Viti menn, þar fann ég þrjár myndir á safninu, tvær af hverjum ég hef hvorki séð né heyrt af (Dark Passage og They Drive by Night), þriðju af hverjum ég hef aðeins séð hálfa (To Have and Have Not). Á þetta verður horft. Núna rétt strax. Svo fer í hönd einkunnagjöf í bógörtum, frá einum og upp í fimm. En svo lesendur hafi nokkurn samanburð hyggst ég fyrst rumpa af því gustukaverki að meta þær myndir sem ég hef þegar séð, í stafrófsröð, eftir minni, enda mislangt síðan ég sá þær:

The African Queen:
BogartBogartBogartBogart

The Big Sleep:
BogartBogartBogartBogartBogart

The Caine Mutiny:
BogartBogartBogartBogart

Casablanca:
BogartBogartBogartBogartBogart

The Maltese Falcon:
BogartBogartBogartBogartBogart

Sabrina:
BogartBogartBogartBogartBogart

Sahara:
BogartBogartBogart

The Treasure of the Sierra Madre:
BogartBogartBogartBogartBogart

5 thoughts on “Svefnleysi og Bogart”

  1. Nú eru yfir 10 ár síðan ég sá The African Queen seinast og yfir 20 ár síðan ég sá Sabrinu, en ég mundi setja þá fyrrnefndu mun ofar.

  2. Þessu fylgir hálf barnsleg útskýring. The African Queen er nefnilega langtum betri mynd en Sabrina, engin spurning.
    Sabrina er hins vegar þannig að ég sá hana á dálítið sentímental tímaskeiði, og eins og hún lifir í minningunni tel ég mér trú um að líklega gæti ég horft endalaust á hana, líkt og aðrar myndir sem ég sá fyrst á þeim tíma.
    Það eru þó ein fimm ár síðan, líklega, svo ég veit ekki hvort ég verð fyrir vonbrigðum næst þegar ég sé hana. En auðvitað verður bógartagjöf endurskoðuð m.t.t. þess hvernig mér finnst þær hverju sinni. Hef einmitt stefnt að því í nokkurn tíma að endurnýja kynnin við Sabrinu.

Lokað er á athugasemdir.