Hálfir skósólar

Skundaði í skólann í þessu líka hryllilega frosti eftir hálfa andvökunótt og hálfa svona hinsegin þarsem maður sefur. Varð svo var við að einhver gekk á eftir mér, beið með að kíkja þartil ég gekk fyrir hornið. Þá uppgötvaði ég að það gekk enginn á eftir mér, aukamarrið var í skónum mínum. Af því dreg ég þá rökréttu ályktun að skórnir mínir tryggu séu að rifna í tvennt.

Mætti svo í vinnuna, pirraði mig enn einu sinni á ljóðabókaúrvalinu og ákvað svo að senda tölvuskeyti á allan póstlista Borgarbókasafns. Með sem fæstum orðum eru þeir dagar liðnir að ljóðabókum sé fargað á bókasöfnum, af hvaða ástæðu sem það kann að vera. Ég hef sumsé tekið að mér að hirða þær allar, hvert og eitt einasta eintak sem stjórnendur safnanna huga ekki frekara líf. Þetta hyggst ég lesa alltsaman og varðveita fyrir mig og aðra. Öll aukaeintök sem ég fæ er mér að sjálfsögðu bæði ljúft og skylt að gefa þeim sem vilja.

Ég geri ekki ráð fyrir öðru en ég fái heilu ósköpin af bókum. Í það minnsta heilan helling.

Nótt að morgni

Hef legið andvaka í alla nótt eftir að ég las í Útgönguleiðum eftir Steinar Braga, en það er ekkert samhengi þar á milli þótt í fljótu bragði gæti virst fyndið að halda því fram.

Mér er ómögulegt að líta það öðrum augum en svo að enn sé nótt úti, samt er ég kominn á fætur, ósofinn að bíða eftir tekatlinum. Drekk kaffi sífellt sjaldnar eftir að ég uppgötvaði mjólk út í Earl Grey, en sjálfsagt er þetta allt sama eitrið. Og hverju fleiru fleygir dagurinn framan í mig? Sulla mjólk út í teið, á fernunni stendur: Gildir til 01 11. O me miserum! Ég er að eldast! Þessu hafði ég alveg gleymt þrátt fyrir að allt ættartréð hafi verið að hringja í mig í tíma og ótíma að trufla mig með þessu.

Jahérna, svona verða víst birtuskilyrðin það sem eftir lifir vetrar. Sit hérna semsagt, mæni útum gluggann á þetta vesturreykvíska útsýni sem ég er farinn að venjast einum of vel, og velti fyrir mér einhverju því allra undarlegasta konsepti sem mér hefur dottið í hug. Vona bara að það sé nothæft.

En nú dettur mér ekkert fleira í hug til að þusa um á þessum síðum, svo ég vísa bara í tvö ljóð eftir Eirík Örn Norðdahl í tilraun til að mynda einhvers konar hugrenningatengsl. Ég er nefnilega meðal annars að pæla í nokkurs konar Berlínarmúrskonsepti, svo var að renna upp fyrir mér rétt í þessu að ég á kórónaföt, albestu jakkaföt sem ég hef átt. Þau eru saumuð í Karnabæ á öndverðum níunda áratugnum, og náunginn sem saumaði þau vinnur í Herra Outlet, Faxafeni. Hann er pólskur, fyrir þá sem það vilja vita, og ef til vill heitir hann Karel en það veit ég ekkert um.

Dunaður er dansinn

Mikið þykir mér vænt um alla þessa vitleysinga sem ég á að vinum. Í einu kraðaki á Kofa Tómasar frænda, eins og í Twister, reynandi að drekka bjór undir handarkrika næsta manns og seilast í sígarettur með hinni undir löpp og yfir bak á tveimur öðrum. Mynda svo eina dansandi hrúgu milli bars og borða, ofaná stólum, undir hverju öðru, hoppandi, hlæjandi, drekkandi, reykjandi, æpandi í yfirþyrmandi kátínu. Svona eiga kvöldin að vera.

Allir eru í rífandi hátíðarskapi eftir dúndurvelheppnað ljóðakvöld Nykurs á Litla ljóta andarunganum síðastliðinn fimmtudag. Góð stemning, troðfullt af fólki, gerður góður rómur að skáldum eftirá, allir í miklu stuði á meðan. Jón Örn átti kvöldið þegar hann mæmaði ljóðin sín og gerði sitt allrabesta til að útskýra þau. Hefði Silja Aðalsteins fengið sér súpu gæti ég sagt að ég hefði séð hana drukkna í súpudisknum af hlátri, en hún fékk sér enga súpu.
Eftir þetta héldum við Kári, Ásgeir og Steinar Bragi við fimmta mann upp á Ölstofu, hittum þar Ófeig Sigurðsson, og sátum drykklanga stund við drykkju og almennt röflerí um skáldskap og sjálfsútgáfu.

Eftir klímax helgarinnar í gær finnst mér eins og ég hafi gengið gegnum endurfæðingu, í það minnsta var sárt að vakna svona eftir djamm ársins. Sannkölluð skáldahelgi líka, alltaf að hitta einhver skáld, Steinar, Ófeig, Sigurð Pálsson, og svo hitti ég Bjarna Klemenz í gær. Líst ansi vel á bókina hans nýju. Sól og milt frost úti um síðdegið, algjör sunnudagur í algleymingi úti um allt hér í Vesturbænum, sem ég gekk tvær götur til hliðar við mína og sótti bókarkápu og aðra myndskreytingu. Þetta verður ansi eigulegur gripur sýnist mér á öllu, og nú er ekki seinna vænna að senda barnið í umbrot!

Tilvitnun dagsins

Það er af mörgum ástæðum að ég bendi á grein Ingólfs Gíslasonar á Múrnum. Ein þeirra er þessi litla klausa sem fangar svo ótrúlega vel það sem ég hef lengi reynt að segja, greinin sjálf er svo orð í tíma töluð:

„Mörg sem læra til kennara heillast af svokallaðri fjölgreindarkenningu. Þau þykjast sjá að andlegir hæfileikar verða ekki mældir með einni tölu. Og það er alveg rétt. En þeir verða heldur ekkert mældir með sjö tölum eða níu. Það er hægt að kvarða hugsun eftir mörgum áttum en til hvers að gera það?
Ekki ein greind, ekki sjö, ekki níu. Greind er satt að segja ónýtt hugtak.“

Tilkynning

NykurFimmtudaginn næstkomandi, þann 26. október, mun skáldafélagið og útgáfan Nykur standa fyrir ljóðakvöldi á Litla ljóta andarunganum við Lækjargötu í Reykjavík (í innri salnum). Gamanið hefst klukkan 21:00.
Að þessu sinni munu eftirfarandi Nykurskáld lesa:
Arngrímur Vídalín,
Emil Hjörvar Petersen,
Jón Örn Loðmfjörð,
Kári Páll Óskarsson,
Bjarney Gísladóttir,
Urður Snædal.
Aðgangur er ókeypis og allir eru velkomnir!

Samsærið

Sendur heim úr vinnu klukkan sex vegna veiklulegra (en karlmannlegra) tilburða. Þá hlýtur það að vera slæmt, ég var ekki neitt sérstaklega að barma mér þrátt fyrir hörmulega líðan.

Ég held að ég sé náunginn sem þeir prófa allar nýju pestirnar á, svo það sé alveg öruggt að þær séu ekki of hættulegar áður en þeim er dreift út í andrúmsloftið.

Svo segja menn hryllingssögur af Óla Lokbrá! Þessir náungar eru sko ekki að dreifa neinu glimmeri!

Upptekni maðurinn

Allur dagurinn hafði farið í að vinna og fullklára eitt verkefni. Undir nótt lágu skýin eins og satúrnusarhringur umhverfis jörðina og stjörnurnar glitruðu eins og kvikasilfur bakvið þau. Ég gat ekki sofið, vegna draumóra annars vegar, vægrar streitu og kvíða hins vegar.

Ég reif mig framúr rúminu klukkan kortér í átta eftir minna en klukkutíma svefn, fékk mér kaffisopa og kom mér niður á Grand Hótel Reykjavík á málstofu Vinnueftirlits Ríkisins. Ég var aðeins nýkominn þegar ég uppgötvaði að ég hafði misskilið eitthvað og samið rangan fyrirlestur. Það varð mér til happs að ég var síðastur í fyrirlestraröðinni. Fór þá hálfur tíminn í að gjörbreyta erindinu og restin í að ná mér niður eftir áfallið. Framsagan gekk vel.

Dreif mig niður í skóla og náði hálfri kennslustund þar sem hlustað var á flámæli og fleira í þeim dúr af segulbandi. Flaut þaðan á gulu fleyi sem leið lá niður í Sólheima þar sem ég verð fram undir kvöldmat. Mig minnir að það sé einhvers konar fundur í kvöld um áttaleytið. Manneskja hringdi í mig áðan með vesen, og brást ég ókvæða við og frábað mér snattið. Ég hef enn ekki haft tíma til að borða.

Við étum grind og spik

Nú príla menn hver yfir annan á kommentakerfum bloggsíðna hafandi eftir nákvæmlega sömu frasa um hvalveiðar og næstu menn á undan. Það er ástæða fyrir því að ég nenni varla að tjá mig um þær.

Mér finnst allt í lagi að veiða þetta, á sömu forsendum og mér finnst allt í lagi að veiða aðrar skepnur. Ég rakst hins vegar á þessa vefsíðu gegnum Hildi. Það er afskaplega auðvelt að missa sig, og meðan mér sýnist engin vitsmunaleg umræða geta átt sér stað, þá er kannski bara betra að sleppa þessu.

Kominn í loftið

Kaninkan loksins komin í loftið aftur.

Í fyrramálið flyt ég erindi um stöðu ungmenna á vinnumarkaðnum á málstofu Vinnueftirlitsins. Ég vona bara að mér hafi tekist að uppfylla allar kröfur á sama tíma og ég get kannski bent á eitthvað nýtt.

Auður Lilja, Kári, Sverrir og Óli Gneisti útskrifuðust öll á laugardaginn og óska ég þeim öllum til hamingju aftur. Veislan var hin best heppnaða, í það minnsta lamdi Freyr engan, og ég þakka fyrir mig. Talaði aðeins við Ármann um gubb. Honum tókst nefnilega að eyðileggja fyrir mér allan fyrripart laugardags með einhverju gubbblæti í Víðsjá, get svosum kennt sjálfum mér um að hafa hlustað.

Annars fer allur dagurinn hjá mér í að vinna í verkefni dauðans. Mun ég af þeim sökum taka það óstinnt upp ef einhver hringir í mig til að freista mín með einhverjum bæjarferðum.

Jæj e suj

Erfitt vakn í dag. Ég er í annað sinn í þessum mánuði að verða veikur. Gamla húsráðið að setja koníak út í te er ekki að virka í þetta skiptið. En nú er að koma helgi. Kannski maður sleppi teinu út í koníakið og voni bara það besta.

Ég er hættur að borga fleiri þúsundir fyrir tíma hjá heimilislækni þegar það er fyrirframgefið að hann sparki mér út fimm mínútum síðar með lyfseðil fyrir pensillíni upp á fleiri þúsundir króna. Reynslan hefur sýnt mér að þegar minniháttar veikindi eiga í hlut, tekur það mig jafnlangan tíma að jafna mig á pensillíni og án þess. Er ekki líka hætt við því að maður verði hreinlega ónæmur fyrir því ef maður hleypur til læknis í hvert sinn sem maður fær hálsbólgu og hita?