Almennilegt

Veðrið í gær var stórmagnað. Það hefur raunar sína ókosti að sækja nám til Reykjavíkur ef maður býr í Hafnarfirði. Ekki síst ef maður hefur hangið yfir kaffibolla til lokunar kaffistofu Árnagarðs, gerir svo tilraun til að skafa af sumardekkjuðum bílnum þótt það þýði lítið í ofankomunni, og uppgötvar eigi fyrr en í miðri ösinni að maður lagði af stað á versta mögulega tíma, einmitt þegar allir reykvíkingar virðast halda að þeir búi í Hafnarfirði.

Umferðin var furðugreið raunar, síðustu tuttugu mínúturnar af rúmlega klukkutíma langri bílferðinni frá Háskóla suður í fjörðinn. Syðsti endi Reykjavíkurvegarins var líkastur skíðabrekku og samúðarblandnar hláturviprur munnvika sendi ég þeim sem sátu fastir eftir endilangri Strandgötu upp hálfa brekkuna í hina áttina vegna áreksturs ofarlega. Leikurinn var víst ekki búinn því lögreglan stýrði umferðinni síðustu gatnamótin eftir hringtorgið við Hvaleyrarbrautina, en gleymdi víst íbúum holtsins sem sátu fastir í bílaröð næstu tuttugu mínúturnar eftir að ég kom heim, ef ekki lengur. Annars nýt ég þess að hafa svona mikinn snjó, mér finnst það algert æði. Bara hí á þá sem fara í fýlu.

Að þessu sögðu langar mig að kynna sambland nýyrðis og tökuorðs. Það hefur löngum farið í taugarnar á mér þegar litli bróðir minn sýnir mér blingrið sitt og kallar það bling bling. Þess vegna mælist ég til að við köllum þetta bara blingur, beygist eins og glingur.

11 thoughts on "Almennilegt"

 1. Gunnar Örn skrifar:

  Blingur er kúl.

 2. Birkir skrifar:

  Mér finnst veðrið undanfarið einmitt mála veröldinna fögrum litum. Einnig er gaman að taka fram úr bílatröðinni þegar ég geysist um á hjólinu mínu. Ég hef einmitt ansi gaman af því að hjóla í snjónum þó það sé „ómögulegt“.
  Blingur! eÐALL.

 3. Kristín Svava skrifar:

  Af hverju tekur fólk ekki strætó?
  Ég furða mig sérstaklega á því í þessari færð.

 4. Býrð þú í Hafnarfirði, ha? HA?! Hélt ekki, hah! HAH!!
  Að því sögðu þá tæki ég svosem alveg strætó ef ég nennti að labba geypilegar vegalengdir til þess eins að taka tvo vagna í vinnuna, og því nenni ég ekki. En mér finnst gasalega fínt að ferðast með strætó. Gasalega.

 5. Erla skrifar:

  Þú býrð í Hafnarfirði og ert þess vegna á bíl, ég er ekki á bíl og bý því ekki í Hafnarfirði… ég fagna reyndar bílleysinu þótt ég hafi ekki samanburðinn, datt í hug núna fyrir jól að ég væri örugglega að spara mér umtalsvert jólastress BARA með því að keyra ekki. Hah!

 6. Hommadjöfull þarna! HOMMI!!
  Fæ ég msnið þitt?

 7. Aha. Og Skarpa, ef slíkt er til (sé hann ekki fyrir mér á msn, ekki spyrja).

 8. Elías Halldór skrifar:

  Bílleysið er ættgengt. Í hennar tilfelli erfir hún það frá báðum foreldrum.

 9. Erla skrifar:

  Alltaf jafn krúttlegt þegar faðir minn ræðir mig í þriðju persónu á vettvangi þriðja aðila. En það er rétt til getið, Skarpi er álíka lítið fyrir msn og hann er fyrir bíla, eða pestó… ég aðeins meira, skal senda þér það!

 10. Skarpi skrifar:

  msn: Þangað sem orðin fara til að deyja.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt.