Af engu og öllu

Við hlið mér býr beljaki sem kastað getur bílum langar vegalengdir, ef honum væri ekki svo umhugað um eignarréttinn. Í dag þarfnaðist ég þjónustu hans sárlega, og bað þess í hamandi brjósti mér sem ég hringdi bjöllunni að hann væri ekki í austurvegi að berja á tröllum. Svo reyndist ekki vera, en til dyra gekk krambúleraður beljaki sem gat mig í engu aðstoðað, lamur á fæti, snúinn á hrygg og barinn i framan. „Nastí tröll?“ spurði ég. „Amms,“ sagði beljakinn og hörfaði úr dyrunum. Í því sem ég sneri mér við braust hönd gegnum vegginn með skóflu. „Hurr,“ heyrðist handanvið og ég greip skófluna með þökkum og hófst handa við að moka bílinn minn út. Án árangurs.

Af þeirri hinni sömu ástæðu hef ég tekið fjóra strætisvagna í dag. Þann fyrsta tók ég á Hlemm til að þá ölmusu, kaffi og svartagallsraus hjá ömmu minni. Þann hinn annan tók ég niður í vinnu til að sækja tölvuna mína. Á göngu minni um heimana mætti ég táningsstúlku þjakaða af byrðum viskunnar (bókum). „Hæ!“ sagði hin tápmikla dama. „Huh?“ sagði ég. „Er búið að loka safninu?“ var ég sprundspurður. „Eeehh, jamm, en það er lúga …“ sagði ég. „Takk!“ hrundaði sprundið og valhoppaði leið sína. Ég man ekkert eftir henni, hélt ég þekkti flesta lánþega með nafni. Þriðja vagninn tók ég frá Glæsibæ að Hlemmi og rétt náði að stökkva upp í hinn fjórða heim á leið. Í millitíðinni tókst mér að vísa tveim Rúsölkum að Laugardalslaug og uppskar að ég væri krútt í staðinn. Sem ég barasta hlýt að vera, fyrst þær sögðu það.

Í Firði náði ég að skakklappast einhvernveginn innfyrir ríkisins dyr áður en þær luktar voru almenningi framá mánudag. Nú á ég nægan bjór og engan bíl til að skandalísera á undir áhrifum. Mat á ég ekki annan en súran í dollu, en hann rennur ljúflega niður með bjórnum. Súrt og biturt (í einhverjum skilningi allavega) fer ákaflega vel saman, eins og súrt og biturt fólk ætti að þekkja af eigin raun. En ég er kátur, að minnsta kosti í einhverjum skilningi þess orðs, með íbúð útaf fyrir mig þessa helgina og fantamikið að gera.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *