Pasta

Þegar ég var á að giska í 10 ára bekk setti Guðrún Ásbjörnsdóttir okkur fyrir að elda kvöldmatinn fyrir þreytta foreldra okkar og útskýra aðferðina daginn eftir. Illar tungur gætu sagt að þannig hefði hún sjálf verið að upplifa einhverja fantasíu gegnum okkur en ekkert er fjær sanni. Guðrún er ein af þessum fáu kennurum sem ég hafði sem voru alveg einstakir og kenndu ekki aðeins af mikilli þolinmæði heldur líka af einlægum áhuga á hverjum og einum nemanda. Þetta kvöld elduðum við mamma pastasalat ofan í fjölskylduna og uppskriftina man ég enn. Það kom sér vel áðan þegar mig langaði í.

Af eldamennsku minni segir enn frekar að ég hef stundum eldað pasta þegar Andri bróðir minn hefur verið í heimsókn. Strákskrattinn, sem skyndilega slagar upp í þrettán ára aldurinn, hefur hreint ekki sparað stóru orðin um þá matargerð. Og greinilega ekki aðeins við mig, því síðast þegar ég leit inn til mömmu hafði hann leynilega numið af mér uppskriftina og beðið mömmu að elda það sama og þannig virðist sagan hafa endurtekið sig með nokkuð kyndugum hætti. Öðruvísi mér áður brá. En sumir hafa greinilega næga persónutöfra til að þurfa ekki að gera það sjálfir sem þeir þó kunna.