Sjortarar

Hella var fín. Ég reyndar eyddi mestum tímanum á hótelinu, en ég er hvort eð er með blæti fyrir hótelum svo ekki spillti það fyrir. Skrifborðið inni hjá mér virtist ófullgert án viskíglass. Ég er líka með blæti gagnvart slíkum skrifborðum, svo það er aldrei að vita nema ég snúi aftur með flösku og glas til að fullgera stemninguna.

Í öðrum fréttum horfði ég í kvöld á tvær myndir sem fékk mig til að líða illa. Fyrst var Death of a President sem var algjörlega vannýtt tækifæri til að segja merkilega hluti og kanna pólitískar afleiðingar þess að myrða George Bush. Innantóm þvæla sem hefði allteins getað verið nútímauppfærsla á Kennedymorðinu.

Seinni myndin var Paris, Je T’aime sem ég hef haft í láni núna ansi lengi án þess að horfa á hana. Sum atriðin voru afskaplega plain, falleg, rómantísk. Önnur voru hlutlaus en þau voru fæst, helst þrjú, en flest voru beinlínis trist. Gaman að sjá Samönthu úr Glæstum vonum þarna. Síðasta mynd sem ég sá með henni var líka andskoti trist á „fallegan“ hátt. Stundum vantar bara hærri aldurstakmarkanir á myndir. Sú mynd var líklega helst ætluð fimmtugum og eldri, en þessi var ágæt fyrir flesta aldurshópa yfir tvítugu. Frekar mannlegt stöff.

Annars er bara enn ein vinnuvikan hafin og ég er þegar farinn að bíða næstu helgar. Sögur af safninu spilla ekki fyrir svo ég dembi einni á ykkur. Fyrir ekki svo löngu kom nefnilega kona á sjötugsaldri á safnið mitt og bað um sjortara.

Sagan er ekki búin!

Svo ég fór upp í hillu og sótti bók sem heitir Sjortarar: kynlíf fyrir önnum kafið fólk og spurði hvort þar væri umrædd bók. Konan flissaði vandræðaleg inní sig, hristi hausinn pínupons og sagði „Nei, tíhí, nei, það var ekki þessi, flissifliss.“ Hún átti víst við nýju spennusöguna hans James Pattersons.

Og sagan heldur áfram að endurtaka sig …

5 thoughts on “Sjortarar”

  1. Sæll Arngrímur.
    Ég varð að kíkja yfir bloggið þitt eftir að hafa fengi slóðina hjá Pabba þínum. Já, ég er konan sem hann talar við í tíma og ótíma þessa dagana. Og ég geri fastlega ráð fyrir að við hittumst næstu helgi. Sé mér færi á borði að koma mér „beint“ á framfæri við þig, á hans milligöngu, svona fyrst til að byrja með.. Vona að þér þyki það í lagi.
    Sagan af konunni á Bókasafninu er hreint út sagt óborganlegt:)
    Þú ert þræl góður penni og með hárfínan húmor, eitthvað sem er alltaf skemmtilegt að rekast á.
    Ég hlakka til að hitta þig,
    kveðja,
    Linda Gísla

Skildu eftir svar við Linda Gísla Hætta við svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *