Béa

Þá er béaritgerðin mín komin úr prentun, skylduskil í Hugvísindadeild og Þjóðarbókhlöðu að baki. Þá er bara að senda afurðina til leiðbeinanda sem kemur henni áleiðis til prófdómara. Ef að líkum lætur verð ég ekki felldur fyrir uppátækið. Ritgerðinni hef ég komið fyrir á þessari síðu vegna þess að ég trúi á að akademía sé almenningseign og að höfundarréttur eigi ekki við um fræðilegar greinar. Hana má lesa hér.

Ritgerðin er ekki fullkomin og ég veit nákvæmlega hvar veikleikar hennar liggja, ef nokkur nennir yfirhöfuð að gagnrýna hana.

Einingarnar mínar frá Árósum komu sömuleiðis í dag og samtals eru þetta 35 einingar í hús. Það þýðir að ég á eftir heilan vetur í fullu námi ef ég ætla að útskrifast næsta vor. Allajafna væri mér drullusama en núna hef ég fastákveðið að flytja til Árósa svo fljótt sem auðið er svo ég komist í framhaldsnám. Mér hafa þótt kringumstæður til grunnnáms á Íslandi alveg nógu ókræsilegar hingað til og ekki bætir hrunið og eftirköst þess úr skák. Það eru eiginlega engin skilyrði til náms eftir á Íslandi og það er annaðhvort að fara eða verða bókavörður það sem eftir er. Svo ég ætla að fara.

Svo ég sé fram á fullt nám í vetur ofaná allt að 70% starf á bókasafninu auk annarra smærri verkefna. Það geri ég fyrst og fremst til að lifa af. Svo borga ég skuldir eftir föngum og get þó ekki sagt að ég sé meðal stórlaxa í skuldabók þjóðarinnar. En ef ég ynni ekki svona mikið þá væri ég samt sem áður í verri málum en ég kann frá að segja. Þannig er nú það. Og sannast sagna veit ég ekki hvað yrði eiginlega um mig mitt í þessu öllu saman ef ég hefði ekki þetta haldreipi – að eftir ár get ég byrjað að gleyma öllum vandræðum mínum hér heima og hafið nýtt líf annarsstaðar, á allt öðrum forsendum, með glæný markmið – markmið sem ég hafði að leiðarljósi þegar ég hóf nám fyrir þrem árum en var löngu búinn að gefa uppá bátinn vegna þess að það var bara aldrei nokkur möguleiki á að þau gætu orðið að veruleika hérna.

Og það er þónokkurs virði að eiga sér skyndilega markmið, eitthvað til að stefna að. Þegar talað er um að eitthvað sé „svo 2007“ þá á það varla við um neinn almenning. Það var skítt að vera námsmaður 2006, 2007 og 2008 og það er langtum verra að vera námsmaður núna. Það hefur alltaf verið ömurlegt að vera námsmaður á Íslandi – öll þriðjaheimsrök afþökkuð. Og jájá, kannski er ekkert svo glæst að vera námsmaður í Danmörku heldur. En það er þó von þar. Og ég ætla mér að halda í hana. Ég skal miklu fremur lifa á núðlum þar heldur en hér.

Í mínu ungdæmi (varúð, íronía)

Mér finnst stundum gaman að þykjast vera gamli karlinn. Fyrir einhverjum árum sagði ég við táning að það skipti engu máli hvað hún segði, ég tæki ekki mark á svona krökkum sem væru fæddir eftir fall Berlínarmúrsins. Grey stelpan hélt ég meinti þetta og varð voða skömmustuleg.

Það er jú í sjálfu sér ekki neitt voðalega merkilegt að muna hvernig þjóðfélagið var fyrir tveim árum þótt fólk tali nú varla um neitt annað lengur. Einhvern tíma lék ég gamla karlinn í vinnunni og minnti á að fyrir ekki svo löngu fengust ekki einu sinni hamborgarar á Íslandi – fólk keypti sér einfaldlega nautahakk og bjó þá til. Og það datt engum í hug að setja ost á þá. Þá var það ekki hamborgari nema á honum væri Gunnarshamborgarasósa, kál, tómatar og gúrkur. Það var einfaldlega ekkert annað, að minnsta kosti ekki neinstaðar sem ég þekkti til. Og fyrir okkur viðrinin sem ekki vildum þetta? Þá var það Libby’s tómatsósa úr glerflösku. Einsog maður var orðinn helvíti laginn við að ná jukkinu úr henni. Það er gleymd list.

Pítsur voru annaðhvort heimagerðar eða Ömmupítsur. Pizza Hut kom fyrstur slíkra staða um eða eftir 1990. Venjulegur heimilismatur samanstóð oft, ef ekki af fiski og kartöflum, af unninni íslenskri kjötvöru og gufusoðnu grænmetisjukki, t.d. kálbögglar, fiskibollur, slátur, bjúgu, kjötbúðingur og svikinn héri. Stundum fékk maður kjúkling en það var meira til spari. Heimatilbúnir hamborgarar eða pítsur voru ekki á hverju strái en pylsur voru ágætis sárabót. Heilsubyltingin var nefnilega ekki hafin. Og ef maður vildi ekki matinn þá var talað um fátæku börnin í Afríku. Núna nægir kannski að benda á foreldrið sem eldaði matinn. Gosdrykkir voru ekki mikið á boðstólnum. Með matnum var ýmist mjólk eða djús úr Egilsþykkni. Og þetta nákvæmlega sama fékk maður á leikskólanum.

Börn átu nesti í skólum (en sú tilhugsun), fengu húslykla sex ára og flestum foreldrum nægði að þau létu vita af sér gegnum landlínukerfi Pósts og síma. Og oftast var alveg í lagi að sleppa því, foreldrarnir höfðu lag á að finna börnin sín með öðrum ráðum. Og ef börnin fundu ekki vini sína heima hjá sér fundu þau þá annarsstaðar; maður vissi alltaf nokkurnveginn hvar þá væri að finna.

Og Hagkaup, sem varð Nýkaup og svo aftur Hagkaup, beygðist: Hagkaup, Hagkaup, Hagkaup, Hagkaups í þá daga. Skrýtið sem það var. þá voru Ískóla, RC Cola, Sinalco, Seltzer og Tab ennþá vörumerki. Jón Páll seldi Svala, Laddi þótti fyndinn og trópíkarlinn var lifandi appelsína.

Og það er ekkert langt síðan þetta var svona. Ég myndi segja að þetta hafi byrjað að breytast milli 1992 og 1993 með auknu vöruúrvali, tölvuvæðingunni í kjölfarið og loks farsímavæðingunni sem skók mína kynslóð kringum 1999.

En það eina sem kom vinnufélögunum á óvart við þessa upptalningu var tómatsósan í glerflöskunum. Þau könnuðust við allt hitt, meira eða minna. En uppúr þessu hófust semsé þónokkrar samræður um mismunandi leiðir til að losa tómatsósu úr glerflösku: nota hníf, láta flöskuna undir heita bunu og guð má vita hvað. Og skyndilega fannst mér sem gamli karlinn hefði snúist við í höndunum á mér – hvernig gat fólk mögulega nennt því að sitja þarna diskúterandi tómatsósu í glerflöskum?

Fimmta alþjóðlega ljóðahátíð Nýhils

Nú í kvöld var fimmtu alþjóðlegu ljóðahátíð Nýhils þjófstartað með koverljóðakvöldi á Grand rokk. Á morgun verður hátíðin hinsvegar formlega sett í Norræna húsinu við hátíðlega athöfn klukkan fimm og um kvöldið klukkan níu verða sýnd myndljóð. Á föstudags- og laugardagskvöld verða upplestrar. Nánari upplýsingar um hvar og hvenær og hverjir lesa og hvaðeina fást hér. Sjálfur mun ég lesa efni af ýmsum toga úr væntanlegri bók.

Í tengslum við hátíðina er komið út sérstakt hátíðarhefti Tíuþúsund tregawatta í ritstjórn Hauks Más Helgasonar og Bryndísar Björgvinsdóttur. Þar í eru til að mynda ljóð og þýðingar á ljóðum eftir hátíðarskáldin. Einnig er komin út fimmta afbók Nýhils, Af steypu, í ritstjórn Kára Páls Óskarssonar og Eiríks Arnar Norðdahl. Einsog titillinn gefur til kynna er efni bókarinnar, greinar og ljóð og jafnvel ýmislegt annað, helgað konkretljóðlist. Þar í á ég sjálfur tvær þýðingar á greinum eftir Eugen Gomringer, svo ég haldi því til haga að þetta blogg fjallar fyrst og síðast um sjálfan mig.

Allir eru að sjálfsögðu velkomnir á hátíðina og mæli ég sterklega bæði með hinu sérlega hátíðarhefti Tregawattanna og Af steypu fyrir alla bók-, og kannski ekki síst, ljóðhneigða menn og konur. Ég veit ekki hvað þetta kemur til með að kosta en miðað við alla þá vinnu sem lögð var í hvorttveggja væri hérumbil hvaða prís hóflegur. Venju samkvæmt verða aðrar bækur skáldanna til sölu á upplestrarkvöldunum tveim, sem verða haldin í Tryggvagötu 11 (áður kosningamiðstöð VG). Og við ljóðabangsarnir hlökkum að sjálfsögðu til að sjá ykkur öll.

Óræða borgin

Ég ferðast alltaf til sömu borgar í draumum mínum, meira eða minna. Hverja ég hitti eða reyni að komast í samband við er mismunandi eftir því hvað borgin heitir hverju sinni.

Síðustu tvö skipti hefur hún heitið Árósar. Hún var samt ekkert líkari Árósum núna en þegar hún hét Jyväskylä eða þegar hún var ónefndur bær í Þýskalandi. Hún er alltaf eins. Og einhverra hluta vegna næ ég aldrei í manneskjuna sem ég fer til að hitta.

Mestur tími fer í að forðast allt hitt fólkið sem sækir í mig, fólk sem ég þekki frá fyrri tíð og býr nú í borginni án sjáanlegrar ástæðu. Þá fer ég alltaf á sama barinn, því þar hitti ég engan. Bjórinn kostar lítið og barþjónninn veit hvað ég heiti. Við tölum finnsku saman.

Meiri útgjöld

Svo virðist sem slagsmálum mínum við LÍN sé nú lokið með fullnaðarsigri lánasjóðsins eftir um átta mánaða þras. LÍN vinnur vegna þess að hann ber ekki ábyrgð á því hvort mér berast þau bréf sem hann sendir út. Pósturinn ber heldur ekki ábyrgð vegna þess að pósturinn ábyrgist bara ábyrgðarpóst.

Skemmtilegt hvernig fyrirtæki á borð við póstinn auglýsa vanhæfni sína með því að rukka aukalega fyrir að taka ábyrgð á að sendingar skili sér. Það er í raun ekkert annað en ohf-aður verndartollur. Ímyndið ykkur veitingastað þar sem þyrfti að múta þjóninum til að maturinn skilaði sér á rétt borð. Og þegar maturinn kæmi ekki væri enginn ábyrgur. Þú gætir bara sjálfum þér um kennt fyrir að láta hann fá peninga án tryggingar.

Segjum að ég keypti mér píanó og þyrfti að borga 10% ábyrgðartryggingu til að vera viss um að það sem ég fengi sent heim til mín væri ekki bara trékassi í laginu einsog píanó. Ef ég þyrfti að múta löggunni til að sektargreiðslur skiluðu sér örugglega lengra en í vasa þess sem rukkaði. Það væri nú meira þjóðfélagið.

Í tölvukerfi LÍN stendur að bréfið hafi verið sent. Sum okkar eru ekki svo geðveik að hafa tölvu tengda við póstkassann okkar til að sverja fyrir að tiltekin bréf hafi borist. En án slíkra sannana hef ég ekkert. Svo ég þarf víst að borga af láninu mínu sama hvað tautar og raular. Það má ég þakka skilvirkri póstþjónustu. Og þá vil ég spyrja hverjum ég þarf að múta til að ég skuldi ekki handrukkara óvart hálfa milljón um næstu mánaðamót.

Ferð í bankann

Einsog næstum því enginn sem ég veit um fékk ég ríflega endurgreiðslu frá skattinum. Hún barst mér í pósti í formi ávísunar sem ég arkaði sæll og glaður leikandi milli fingra mér með niður í banka fyrr í dag. Mér þykir yfirleitt leiðinlegt að þurfa að fara í bankann og sjá öll kreppuandlitin með kaffibollana og fékk hálfgert samviskubit yfir að vera að innleysa ávísun en ekki að öskra á þjónustufulltrúann að henni væri helvítis nær að gera mig gjaldþrota, ég gæti sko fundið hana í símaskránni, rispað bílinn hennar og hengt heimilisköttinn uppá snúru.

Að vísu sá ég engan gera það heldur svo ég fékk ekkert alltof mikið samviskubit.

Þvert á móti leit ég vígreifur kringum mig, hló mínu hæverskasta og gjóaði augunum að fálmandi gjaldkera svo hún vissi að hér færi maður með fjármálavit. Þegar röðin kom að mér skellti ég ávísuninni með flötum lófa á gljáfægt marmaraborðið og hallaði eilítið undir flatt á sama tíma og ég skilmerkilega renndi bevísinu mjúklega en glottandi í átt til frúarinnar sem stóðst ekki mátið að gapa af andakt. Hún hafði nefnilega ekkert fengið að gapa af andakt þann daginn. Hver var þessi dularfulli en kynþokkafulli maður?

– Góðan dag, sagði ég og rétti fram kortið mitt. Ég vil leysa þessa ávísun út.
– Jú, góðan daginn. Viltu leggja upphæðina inn á þennan reikning? Hún potaði í kortið mitt.
– Já takk.
– Renndu því bara í gegn, sagði hún þá og bandaði í áttina að einhverju ógnarskelfilegu apparati sem stóð framan við búrið sem hún sat í. Ég renndi kortinu í gegn.
– Viltu að skattstjóri leggi þetta beint inná reikninginn þinn?
– Ha? sagði ég og fálmaði innundir jakkann eftir beiðni sem fylgdi með ávísuninni. Þar stóð skýrum stöfum að ef ég vildi fá millifært beint frá skattinum yrði ég að fylla út beiðnina og koma til ríkisféhirðis.
– En, en … þarf ég þá ekki að tala við ríkisféhirði?
– Nei, ég er að bjóða þér þetta.
– Ég verð að játa að ég skil ekki alveg muninn á hvort skatturinn geri það eða þú gerir það. Getur þú ekki bara gert það? Ég var farinn að roðna og rugga mér í lendunum einsog barn sem er við það að öskra af því mamma vill ekki gefa því farsíma.
– Sko! stafaði hún ofaní mig. Viltu fá þetta greitt INNÁ reikninginn þinn, EÐA viltu fá ávísun senda í pósti?
– Uh, en þetta ER ávísunin sem ég fékk senda í pósti! umlaði ég veiklulega og potaði í ávísunina. Ég horfði á gjaldkerann einsog sokkar stæðu úr nösum hennar. Gjaldkerinn horfði á mig einsog ég væri geðveikur.
– Jú takk, gafst ég upp. Ég vil fá þetta greitt inná reikninginn takk. Gjaldkerinn virtist anda léttar. Skaut samt að mér illyrmislegu augnabliki við og við meðan hún pikkaði taktfasta gjaldeyrisrúmbuna á lyklaborð tölvunnar. Rétti mér svo kvittun fyrir færslunni og bauð mér að eiga góðan dag. Lokaði svo borðinu með einkennilega geðshræringu í svipnum. Hún hélt áfram að líta við endrum og sinnum sem hún stikaði niður ganginn uns hún tók á rás öskrandi útúr bankanum tætandi hár sitt.

Og ég skil eiginlega ekki alveg hvers ég átti að gjalda. Okkur er ekki öllum gefið slíkt fjármálavit. Annars værum við líklega öll gjaldkerar í banka.