Þórbergur, ástin og andófið

Fyrirlesturinn í Suðursveit gekk vel, raunar langt framúr vonum.

Fyrirlesturinn má finna á Tregawöttunum, hér. Í heimildaskrá er vísað beint í béaritgerðina mína, hafi einhver áhuga. Seinna birti ég svo fyrirlesturinn einnig hér, á pdf-formi.

Þetta er annars fyrsta bloggfærslan sem er skrifuð á makka. Ég var semsé að fá mér nýja tölvu. Venst vel.

Jöklar og saga, stjörnur og rómantík

Um helgina verður haustþing Þórbergsseturs að Hala í Suðursveit. Meðal annarra verðum við frændsystkinin Þórunn Hrefna með erindi þar og að sjálfsögðu hvet ég alla lesendur Bloggsins um veginn til að koma þangað. Þingið verður ræst á laugardagsmorgun og stendur fram á sunnudag.

Dagskrána má finna hér. Erindið mitt set ég inná síðuna við tækifæri nema það verði birt annarsstaðar, en þá vísa ég þangað.

Stóra planið

Stundum fellur lausnin einsog af himnum ofan. Ég hef haft áhyggjur af því að undanförnu hvernig ég komi til með að geta lifað fyrstu önnina í meistaranámi án þess að taka bankalán eða vinna einsog skepna, af því LÍN lánar ekki fyrirfram hvort sem maður nemur hérlendis eða þarlendis. Lausnin reyndist æði einföld. Nú er ég kominn með lævíslega gott plan til að fylgja.

Það er þá atriði eitt sem ég get strikað af vandamálalistanum við að flytja úr landi. Vandamál tvö er ekki á mínu valdi, en það er lengd biðlista eftir stúdentaíbúð. Ef atriði eitt gengur eftir einsog ég ráðgeri þá ætti ég að vísu að hafa efni á að leigja herbergi í einhverri rottuholunni uns röðin kemur að mér.

Vandamál þrjú felst í að útskrifast í vor. Til þess þarf ég aldeilis að nema málþróunina sem varð úr frumnorrænu til forníslensku: *herðijaR missir viðskeytið -ja við stóra brottfall > *herðiR sem veldur i-hljóðvarpi (e > i) + R samlagast r > hirðir. Ef ég skildi það rétt.

Hvað maður leggur ekki á sig til að flytja til Danmerkur.

Meira um stílæfinguna

Ásgeir Berg Matthíasson, úrvalsþýðandi, spekingur, launbróðir minn og consiglieri, hefur bent á tiltekin líkindi milli pistils Stefáns Fr. Stefánssonar á æðibunulega repúblíkanavefnum amx og stílæfingarinnar hér neðar á síðunni. Vitaskuld eru öll slík tengsl tilfallandi.

En ég vil endilega koma stórglæsilegum málflutningi Stefáns á framfæri fyrst ég á annað borð lét mig hafa það að garfa í þeim grautarpotti. Á einum stað segir hann um Ögmund Jónasson:

Ögmundur Jónasson, fyrrverandi heilbrigðisráðherra, á hrós skilið fyrir að tala tæpitungulaust við BBC um Icesave, IMF og íslensk efnahagsmál. Þar talar hann máli Íslands betur en allir ráðherrar hafa gert í þessari lánlausu vinstristjórn, enda varla heyrst múkk í þessu liði á alþjóðavettvangi á meðan þörf hefur verið fyrir trausta forystu. Hann á eftir að verða skeinuhættur fyrir stjórnarparið þreytulega, Jóhönnu og Steingrím, í þessari rimmu – gæti orðið örlagavaldur þeirra.

Skömmu síðar segir hann um Össur Skarphéðinsson:

Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, sem hefur verið á flótta frá ástandinu og varla birst í íslenskum fjölmiðlum nema sem einhver váleg skuggamynd á bakvið Jóhönnu, talar hreint út og það við BBC af öllum fjölmiðlum. Kannski ágætt að íslenskur ráðherra tali loks við þá stöð.

Spurningarnar sem brenna á mér við lesturinn eru æði margar, en til að gæta velsæmis læt ég mér nægja að spyrja aðeins einnar: Nákvæmlega hversu illa gefinn er þessi maður?

Nýtt útlit II

Ný byrjun eða nýju fötin keisarans?

Ég verð peningalaus alla helgina. Debetkortið mitt rann út í gær. Svo ég fór í bankann í dag að sækja nýtt en þá var mér tjáð að kortið væri í póstinum. Þegar ég kom heim var ekkert kort þar og of seint að gera athugasemdir.

Kannski er þetta bara enn eitt dæmi um afbragðsþjónustu póstsins: allur pakkinn en engin ábyrgð. Þeir þekkja ekki það hugtak nema maður borgi þeim aukalega.

En ætli maður tóri ekki einsog eina helgi án peninga.

Stílæfing

Oft hefur verið sagt að pólitíkin sé hverful og það má svo sannarlega segja að eigi við í þessu tilviki. Þegar stjórnmálmenn verða uppvísir að rangfærslum með þeim hætti sem svo berlega hefur komið í ljós undanfarna daga er ekki laust við að maður verði hugsi um hvað knýi menn áfram til slíkrar ósannsögli með þeim hætti sem nú hefur svo berlega komið fram í makalausri málefnafátækt stjórnarheimilisins.

Skemmst er að minnast þess þegar allt logaði í hjaðningavígum milli stjórnar og stjórnarandstöðu vegna sambærilegs máls á vordögum 2007 og menn stóðu í málþófi og þótti stjórnarandstöðunni það góð vinnubrögð á þeim tíma og svifust í raun einskis til að koma máli sínu á framfæri með þeim hætti sem mjög er gagnrýndur nú.

Í raun er þetta því allt hið sorglegasta mál og tel ég að lítillar þórðargleði sé að vænta frá vinstri mönnum af þessu tilefni. Steingrímur ætti öðru nær að sjá sóma sinn í að játa mistök sín og svona heilt yfir skammast sín fyrir þær dylgjur og vinstri dylgjur sem gengið hafa með þeim hætti sem raun ber vitni eins og eiturgusur yfir stjórnarandstöðuna á undanförnum dögum og í raun segja af sér.

Í raun má spyrja sig hvað mönnum gangi til með svona vinnbrögðum sem þeir sjálfir hafa gagnrýnt en var aldrei ástunduð af mínum flokki en þeir ástunda nú sjálfir og þykjast góðir með. Glundroði einkennir efnahagsstefnuna og stjórnin stendur falli næst en það er mín skoðun sem ég ber fram á þessum vettvangi sem er minn eigin. Nafnlausar gungur verða ekki liðnar og geta unnt minni skoðun sem ég set fram á mínum vettvangi með þeim hætti sem mér líkar best og er ég viss um að bloggvinir mínar samsinna þeirri skoðun minni.