Rómantík rúnksins

„Það er eilífðarumhugsunarefni hvort meta eigi ljóðabækur eftir heildinni eða út frá gæðum stakra ljóða, en það sem er merkilegt við þessa er að aðalstyrkur hennar er í yrðingunum frekar en heild hvers ljóðs, hér eru ófá ljóð þar sem ein galdrasetning gerir annars hversdagslegt ljóð magnað, yrðingar sem eru ekki bara sterkar í sjálfum sér heldur gefa hversdagslegum setningum sem umkringja hana nýtt líf, effektinn er sá að bókin verður í bland fjársjóðsleit, hvar er gullmolinn í þessu ljóði?“

Ásgeir H Ingólfsson fjallar um Úr skilvindu drauma á Kistunni.

Úr skilvindu drauma er komin í verslanir

Nýjasta bók mín, Úr skilvindu drauma, er komin í verslanir Pennans – Eymundssonar í Kringlunni, Smáralind, Austurstræti og Skólavörðustíg og í Iðu í Lækjargötu og Bókabúð Máls og menningar á Laugavegi. Bókin sem var tvö ár í smíðum kostar litlar 2190 krónur, passar í vasa og er tilvalin í jólapakkann.

Útgefandi er Nýhil og bókin er ríkulega myndskreytt bæði að utan sem innan. Kápuhönnuðir eru Fífa Finnsdóttir og Ólafur Sindri Ólafsson, en myndir innaní bókinni eru eftir Aðalstein Atla Guðmundsson og Kjartan Hall Grétarsson.

Af bókarkápu:

Dagdraumar þínir eru ólíklegir. En fallegir.

Ekki telja þér trú um að sérhvert flökt í viðtækjum séu ómæðruð símtöl óskilgetinna ástarsambanda óviðgenginna játninga og ófeðraðra barna.

Stundum er það bara þannig að fólk á enga vini.

Í sinni þriðju bók notar Arngrímur hrein, íslensk orð til að framleiða hágæðaljóð sem nota má í tæknivörur, umbúðir og einnig til dægradvalar. Markmið Arngríms er að vera í fremstu röð, jafnt í aðferðum, sem framleiðslu á ljóðum. Bókin er sneisafull af endurbótum sem leiða til aukinnar hagkvæmni, minni mengunar, aukins öryggis og betri líðunar á vinnustað.

Af furðulegu háttalagi kattar um kvöld

Í gærkvöldi sat ég sem svo oft áður inni í stofu með tölvuna í fanginu meðan ég horfði á sjónvarp þegar ég heyrði hryllilegt væl í kettinum mínum, einsog hún hefði rekið sig í gegn á einhverju. Ég rann á hljóðið og fann hana úti á svölum. Þá hafði hún hrakið aðkomukött uppá handrið og hélt honum þar í skefjum. Ég kláraði verkið og slengdi boðflennunni framaf og var voða stoltur af gamla greyinu mínu að hafa varið húsið.

Það var ekki fyrren seinna um kvöldið að það tóku að renna á mig tvær grímur. Hvorugur kötturinn var særður. Auk þess er mín bæði lítil af ketti að vera og hún er nærri eins gömul og ég og gæti því tæpast haft í fullu tré við sér yngri högna.

Svo þetta væl getur víst aðeins táknað eitt. Þá er að vona að kattarómyndin sé komin úr barneign því ekki get ég ímyndað mér að svona forn skepna hefði það af að unga út afkvæmum á stofugólfinu (hvað þá pabbi sem lítur á íbúðina sem musteri sitt). Ég hef á hinn bóginn, kannski ólíkt flestum, litlar áhyggjur af kettlingum. Það mætti finna þeim heimili ef sannað þætti að kisan mín réði við að eignast þá. Að öðrum kosti þarf ég að undirgangast það undarlega verkefni að fara með kött í fóstureyðingu.

Já, ég átta mig á því hvernig þetta hljómar.