TOEFL-próf

Einsog lesendum Bloggsins um veginn ætti að vera kunnugt er ég á leiðinni til Árósa í framhaldsnám næsta haust. Umsókn um háskólavist erlendis fylgir einsog við mátti búast óhemjumikið pappírsflóð sem þarf tiltekið marga hornrétta stimpla ofaná undirskriftir kontórmeistara og handhafa réttra prókúra auk ýmissra annarra skilyrða og formsatriða sem uppfylla þarf.

Eitt af þessum skilyrðum er viss lágmarkseinkunn í TOEFL eða sambærilegu stöðluðu, samræmdu enskuprófi. Vegna gengisskráningar krónunnar kostar orðið 20 þúsund að taka svona próf og það er aðeins hægt á tilteknum tíma, alltaf með eitthvað um þriggja til fjögurra mánaða millibili. Auðvitað vill helst enginn þurfa að borga fyrir svona leiðindaprógramm.

Sem er einmitt nokkuð sem kom á daginn þegar ég fór að skoða þetta aðeins betur. Heimild til undanþágu við Árósaháskóla er veitt stúdentum með enskukunnáttu á svokölluðu B-stigi hafi þeir tímasókn uppá að minnsta kosti 210 klukkustundir – ekki kennslustundir. Svo ég hafði samband við gamla framhaldsskólann minn sem reiknaði út fyrir mig að þær 15 einingar sem ég kláraði jafngilda 260 klukkustundum af kennslu, og með einkunn yfir lágmarksviðmiði ÅU er ég undanþeginn prófið.

Ástæða þess samt að mér finnst taka því að skrifa um þetta hér er sú að nú eru ótal stúdentar á hverju ári sem taka TOEFL-prófið vegna þess að þeim er sagt að þeir þurfi þess. Nú er prófið nokkurnveginn alveg eins uppbyggt og venjulegt stúdentspróf, og miðað við hversu margar einingar íslenskir stúdentar taka í ensku fór ég hreinlega að velta því fyrir mér hvort stúdentsprófið eitt og sér komi fólki ekki bara helvíti langt.

Í það minnsta myndi ég hvetja fólk til spyrjast fyrir um hvort það raunverulega þurfi að taka TOEFL-próf áður en það eyðir formúgu fjár í eitthvað sem það hefði ef til vill getað verið án.

3 thoughts on “TOEFL-próf”

  1. Öss, ég er í „Aðrir…“
    Þetta er alvöru viðmót sem þú ert kominn með á síðunni. Ég sé í þessu það sem koma skal í framtíðinni á fleiri síðum. Algjör mínímaismi! 🙂

Skildu eftir svar við Arngrímur Vídalín Hætta við svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *