Rannsóknarskýrslan er fullnægjandi – til síns brúks

Ætli það hafi ekki komið fleirum að óvörum en mér hversu vönduð skýrsla Rannsóknarnefndar Alþingis er. Líklega bjuggust fáir við hversu afgerandi hún í raun er. Störf nefndarinnar eru eiginleg andstæða alls þess sem lýst er í skýrslunni. Stjórnsýslan einkenndist af fábjánahætti og innviðir bankanna voru hriplekir og stoðirnar fúnar – þá undanskil ég ábyrgðarleysi þeirra sem stjórnuðu þeim. Það er heill annar kafli. Hitt sem ég nefni skýrist af myndinni af krosseignatengslum í íslensku viðskiptalífi sem fylgir færslunni (kaldhæðni ekki undanskilin).

En eins góð og skýrslan er miðað við þann ramma sem nefndin starfaði innan þá svarar hún ekki ýmsum spurningum. Nú fellir skýrslan mjög alvarlegan áfellisdóm yfir þrem ráðherrum, jafnmörgum seðlabankastjórum og einu stykki forstjóra Fjármálaeftirlitsins. Skýrslan fjallar einnig um Einkavæðingarnefnd og aðdraganda og ferli einkavæðingar íslensku bankanna. En í skýrslunni er ekki felldur beinn dómur yfir þeim sem að henni stóðu. Af gjörðunum skulið þér dæma þau frekar en við segjum nokkuð gæti verið mottóið þar, Valgerður Sverrisdóttir ekki undanskilin.

Það eru nefnilega fleiri afglöp í starfi en þeirra sjö sem sérstaklega hafa verið nefndir til sögunnar, en einsog Rannsóknarnefnd Alþingis tiltók sérstaklega var það ekki þeirra hlutverk að grennslast fyrir um einkavæðingarferlið sem slíkt. En það vekur hinsvegar upp spurningar um hver ábyrgð þeirra sem stóðu að henni er og hvort þau verði látin svara til þeirrar ábyrgðar.

Þegar Olíusamráðið komst upp varð allt vitlaust og sá kvittur gekk meðal fólks að nú væri eina ráðið að sýna mótmæli í verki og hætta að kaupa pylsur á Select, af því fólk gat jú ekki hætt að kaupa bensín. Rekstrargrundvöllur olíufélaga er hinsvegar ekki pylsur heldur einmitt bensín og þeim sem bentu á Atlantsolíu sem þá þegar var til var sagt að stöðvarnar þeirra væru of fáar til að það væri hægt. Ekki þarfyrir, átakið náði kannski til svona 200 manns. Ég neita enn að skipta við Olís, þótt ekki skipti það nokkru.

Þegar bankarnir hrundu skiptu þeir ýmsir um nöfn meðan þau gömlu kúrðu í skúffum skilanefnda. Þótt þeir hafi flestir skipt um eigendur nú gildir það einu; þetta eru sömu bankarnir. Það er ekki möguleiki á að skipta um banka af því þeir eru allir álíka spilltir. Einu bankarnir sem ekki féllu í hruninu 2008 sitja nú undir ámæli fyrir ýmis atriði sem ég kann ekki nægileg skil á. Mín viðskipti eru hjá Byr, það ku vera óvinsælt þessa dagana. En hvern fjandann getur maður svosem gert?

Í kjölfar hrunsins urðu sviptingar á sviði stjórnmála, en ekki nándar nærri nógu róttækar. Jú, eini flokkurinn sem hafði ekkert með þetta að sýsla komst í stjórn, en menn óttast ennþá að kommúnismi breiðist þaðan útí þjóðfélagið svo endi með þjóðarmorði, eða það skilst mér á umræðu hægrisinnuðustu hálfvitanna á moggablogginu. Sjálfstæðisflokkurinn mælist aftur stærstur og hefur gert í hálft ár eða meira. Framsóknarflokkurinn er eini flokkurinn sem fær makleg málagjöld í skoðanakönnunum – hvað svosem er að marka þær – enda svosem ekki að furða með eins lélega málsvara og raun ber vitni.

En núna ætlaði ég ekki beinlínis að fara að hrauna yfir allt og alla. Ég vildi frekar pæla í vörumerkjum og neysluvitund – svo ég beiti fyrir mig hugtökum sem eru víst nógu sjaldgæf hérna á vinstrivængnum (ef það er yfirleitt gjaldgengt hugtak ennþá). Allir þingmenn og ráðherrar flokka sem bera ábyrgð á því hversu komið er segjast munu axla sína ábyrgð, fyrir utan svo auðvitað það að ekkert af þessu sé þeim persónulega að kenna. Flokkarnir beri sína ábyrgð og muni axla hana, en ég, ónei. Það getur ekki þýtt neitt annað en það að þessir flokkar eigi ekkert erindi á þing lengur einsog þeir leggja sig, eða hvað?

Þingmenn og ráðherrar bera ábyrgð, flokkar bera ábyrgð, en nú eru flokkarnir með nýja og hreina forystu og þingmennirnir ekki lengur ráðherrar eða ráðherrarnir fyrrverandi hættir sem seðlabankastjórar eða hvaðeina sem þeim dettur í hug að segja. Málið er í raun miklu einfaldara en þetta; þeim sem dettur í hug að bjóða sig fram fyrir flokk sem „ber ábyrgð sem hann mun axla“ er ekki að breyta eða hreinsa flokkinn af nokkrum sköpuðum hlut. Hann er að byggja á grunni – eða rústum – þess flokks og mun aldrei geta forðast þá grundvallarhugmynd sem hann reisir sína stefnu á. Það gengur enginn í Vítisenglana til að stofna leikskóla og það gengur enginn í Ku Klux Klan til að breyta skilningi þeirra á blökkumönnum innanfrá.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson byggir á 90% húsnæðislánum, Kárahnjúkavirkjun og einkavæðingu bankanna. Hann mun ekki geta forðast þá ábyrgð þótt flokkurinn hans „axli“ hana, enda þegar flokksmenn segja að flokkurinn (ekki þeir) beri ábyrgð, hvern fjandann er flokkurinn þá að bjóða fram? Bjarni Benediktsson byggir á sömu einkavæðingu bankanna, ábyrgðarlausum skattalækkunum á þenslutíma, innrás í Írak og Afganistan – það gerir Sigmundur Davíð raunar líka – og ég bara nenni ekki að telja upp einstök atriði lengur. Þetta er fullkomlega út í hött. Og meðan enginn telur sjálfan sig bera nokkra einustu örðu af ábyrgð hlýtur sú ábyrgð að falla á flokkinn í heild sinni og því sé hann ekki tækur til framboðs fyrir það fyrsta, til núverandi setu á þingi og í sveitastjórnum hvað hitt varðar. Og það er hreint út sagt ótrúlegt að sjá tilburði og kattaklór þessara embættismanna í kjölfar birtingar skýrslunnar einsog þeir ætli sér að taka nokkra einustu ábyrgð á því hvernig komið er. Fyrir utan svo það að ef þeir sem kjósa Sjálfstæðisflokkinn taka mark á Geir H. Haarde þá hljóta þeir að sjá að Samfylkingin er að minnsta kosti eins saklaus af öllu og hann sjálfur. Allt tal um „Samspillingu“ er hérumbil það heimskasta sem ég hef komist í tæri við að undanförnu.

En hvað segir það okkur þá að svona margir vilja kjósa Sjálfstæðisflokkinn til lands og sveita? Ég held að skýringin sé margslungin:

1. Það er ekkert annað fyrir hægrimenn að kjósa – sem lýsir jafnvel meira ábyrgðarleysi meðal kjósenda en frambjóðenda.

2. Það er komin ný forysta sem axlar ábyrgð – sem er ekki satt sbr. allt ofantalið.

3. Afi minn var sjálfstæðismaður, pabbi minn líka og ég er sjálfstæðismaður – sem er ekki sérlega klókt, í alvöru bara hugsið málin.

Margt fleira mætti svosem telja hér til. En þessi pistill snýst um vörumerki og neysluvitund. Það er ekki hægt að kaupa sér bensín á Íslandi án þess að versla við glæpamenn – nema gegnum Atlantsolíu (enn sem komið er a.m.k.). Það er ekki hægt að fljúga á eða frá Íslandi nema versla við glæpamenn (Pálmi í Fons og Hannes Smára, svo ég skilji Baug sem stofnun aðeins undan). Það er ekki hægt að eiga bankareikning á Íslandi nema vera sjálfur máður af glæpsamlegri forsögu bankanna sem hafa lítið annað gert en skipta um nafn. Það er ekki einu sinni hægt að horfa á Stöð 2 eða lesa Moggann án þess að sverta sjálfan sig ögn í leiðinni. Og fákeppni og hefðarveldi á stjórnmálamarkaðnum hefur orðið þess valdandi að tveir elstu stjórnmálaflokkar landsins virðast ætla að lifa af mesta hneyksli Íslandssögunnar. Það sem ég er að segja er þetta: það er einfaldlega ekki hægt að skipta út fólki í ógeðslegri stofnun (svo ég vitni í Styrmi Gunnarsson) og ætlast til þess að froskurinn breytist í prins. Það er bara fáránlegt. Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkurinn bera, bara sem dæmi, ábyrgð á hruni íslenska fjármálakerfisins og hundruðum þúsunda myrtra í Afganistan og Írak. Það getur því varla talist góð hugmynd að bjóða fram undir sama merki í nafni réttlætis og ábyrgðar.

Svo kannski er þetta ekki spurning um neyslu- eða stjórnmálavitund almennings eftir allt saman. Kannski er þetta ekki spurning um fair trade. Á Íslandi hefur aldrei verið neitt fair trade. Annaðhvort er þetta spurning um það hvort fólki sé virkilega sama eða vilji heldur sjá breytingar, eða hitt, hvort kerfið sjálft sé það einsleitt að fólki sé slétt sama hvað það kjósi. Í öllu falli er ástandið alvarlegt þegar svo margir kjósa siðspilltustu öfl landsins enn af fullum krafti, og fyrir mitt leyti mun ég taka kröfum um róttækni og breytingar þeirra hinna sömu með fyrirvara meðan flestir kjósa Sjálfstæðisflokkinn. Verði þeim að viðleitni sinni, segi ég bara.

Birtist einnig á Kistunni þann 14. apríl 2010.

4 thoughts on “Rannsóknarskýrslan er fullnægjandi – til síns brúks”

  1. Ég held reyndar að vinsældir Sjálfstæðisflokksins séu stórlega ýktar í þessum könnunum sem voru birtar. Svarhlutfallið var að mig minni um 60%. Hvað hefðu hin 40% sagt? Svo getur ekki annað verið en að viðhörf fólks breytist eftir þessa skýrslu svo ég tali nú ekki um eftir viðbrögð sökudólganna.

  2. Fínn pistill.
    Reyndar ákváðu Kaþólikkar í Suður-Þýskalandi að ganga í Nasistaflokkinn eftir að hann komst til valda og breyta honum innan frá. Við vitum hverjar afleiðingarnar af því voru. Maður hefur einmitt stundum heyrt að það verði að breyta Sjálfstæðisflokknum innan frá. En svo virðist sem flokkurinn sé alltaf sterkari heldur en einstaklingurinn. Tja, nema einstaklingurinn sé Davíð Oddsson

  3. Þetta er bara svo skringileg hugmynd Valur. Það getur enginn gengið í Vg til að losa hann við feminískar áherslur. Reyndar eru alltaf undantekningar, örfáum mönnum tókst að breyta Frjálslyndaflokknum í nasistaflokk, en á hinn bóginn reyndi enginn að hvítþvo nasistaflokk Þýskalands með óflekkaðri forystu og tali um að axla ábyrgð. Þetta gengur víst í besta falli bara í eina átt, og flestir ættu að sjá af samanburðinum nákvæmlega hversu fáránlegt allt tal um slíkt er. Grunnurinn stendur alltaf einsog hann var byggður, og það þarf kraftaverk til að losa rústirnar ofanaf.
    Ég þekki náunga sem ætlaði að breyta Sjálfstæðisflokknum innanfrá árið 2006 …

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *