Hin bíræfnu krútt

Krakkarnir á kollegíinu mínu eru svolítil krútt inn við beinið. Þar sem þau koma úr myrkviðum evrópskrar menningar (að undanskildum Tyrkjanum) eru þau vön því að láta samlanda sína leiklesa fyrir sig kvikmyndir, svo þau geti forðast að læra erlend tungumál. Ég lánaði tékknesku stelpunni mynddiska en hún átti erfitt með að fylgjast með af því hún gat ekki stillt nema textann á tékknesku. Núna sitja spánsku börnin frammi og horfa á Love Actually á spænsku. Mig langar að knúsa þau.

Á hinn bóginn eru krúttin andskoti bíræfin. Þau eru jafnvel meiri skúrkar en Svíarnir frá í sumar. Þau öfluðu sér öll hjóla, sum hver glænýrra, á ótrúlega skömmum tíma. Þegar ég spurði hvar þau fengu þau og hvað þau hefðu kostað fékk ég að vita að þau hefðu „hirt þau af götunni“. Það er einmitt nákvæmlega þar sem maður fær glæný fjölgíra hjól með voldugri grind og dempurum á samskeytum sem manni hefði aldrei dottið í hug að máli skipti að dempa. Til að kóróna allt keypti Hollendingurinn svo lás á sitt hjól með öryggiskerfi sem ýlir uns hann stimplar inn réttan kóða.

Sjálfsbjargarviðleitni þeirra er greinilega fáum öðrum takmörkum háð en því lítilræði að horfa á erlendar bíómyndir.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *