Hvað er skrímsli?

Skrímsli eftir Áslaugu Jónsdóttur
Hvað er skrímsli? Sé íslenska orðinu slegið upp í Google finnur maður myndir úr skrímslabókum Áslaugar Jónsdóttur og Disneymyndinni Monsters Inc., en einnig koma fram myndir af einni ófreskjunni úr myndinni El laberinto del fauno og meintu skrímsli sem skolaði upp í fjöru í Montauk fyrir fjórum árum sem ég fæ ekki betur séð en að sé hundur. Leit að orðinu monster færir okkur á hinn bóginn auglýsingar fyrir orkudrykk.

Við þekkjum skrímslið á því að það er öðruvísi en önnur dýr. Raunar er það oft blanda úr öðrum dýrum, óskapnaður í kristilegum skilningi, og við höfum lært að dýr sem ber eiginleika margra dýra í senn er vanskapað, jafnvel af hinu illa. Griffill er blanda af erni og ljóni, mantíkóra er blanda af ljóni og manni. Andstæðan á milli hins náttúrulega og ónáttúrulega verður óskýrari því meiri sem líkindin á milli okkar og hins eru. Menn eru ekki dýr, og dýr sem sækir líkindi til manna er ófreskja. Mestu ófreskjurnar eru þær sem við fyrstu sýn virðast vera mennskar: afturgöngur, uppvakningar, vampírur. Þær eru grótesk afbökun á fullkomnu sköpunarverki Guðs. Það er ekki síst í gegnum trúarbrögð sem okkur er kennt að hata þær.

En það er ekki endilega að svo miklu leyti vegna þeirrar perversjónar á hinu mannlega og náttúrulega sem skrímsli eru svo hötuð, heldur einmitt vegna þess að þau spegla okkar eigin viðhorf sem við kannski þorum ekki að horfast í augu við. Í grunninn er skrímslið við. Við erum skrímslið. Þess vegna er nálgun Áslaugar Jónsdóttur kannski sú sem er mest blátt áfram, því hún leiðir alveg af hugmyndinni um skrímslið sem spegil sjálfsins; skrímslin hennar borða, fá flensu og lesa fyrir svefninn undir sænginni sinni. Og þegar við sjáum að þau eru einsog við, þá lærum við líka að hætta að óttast þau. Sú niðurstaða er eins gömul og skrímslasagan.