Af dönsku, ást og jaðrakan

Það er svo margt sem lítið mál væri að bregðast við og hafa skoðun á, en þegar það hefur safnast saman fellur mér allur ketill í eld.

En eitt dæmi: Af hverju gera Íslendingar alltaf ráð fyrir að danska eigi að vera þeim eitthvað skiljanlegri en önnur mál sem þeir hafa ekki lagt metnað sinn í að læra? Það virðist aldrei vera þannig að skilningi þeirra á dönsku sé ábótavant, heldur séu það Danirnir sem tali með einhverjum fáránlegum framburði. Svo halda hrokafullir ráðherrar út í heim og hrósa öðrum ráðherrum fyrir skýran framburð á dönsku (og það á ensku með þykkum íslenskum hreim), en þótt ótrúlegt megi virðast skiptir engu máli hvernig það er meint því það er alltaf háð þegar útlendingur hrósar manneskju fyrir að kunna móðurmál sitt.

Annars er stemningin í Vatnsmýrinni dálítið í anda The Birds nú um stundir þegar varpið stendur sem hæst: kríur halda uppi ógnandi jaðarvörnum og aðrir fuglar (ég held ég hafi séð jaðrakan þeirra á meðal) hafa dreift sér strategískt hér og hvar og senda skilaboð sín á milli um mannaferðir (ef einhver skilur ekki af hverju brýrnar vantar milli Hringbrautar og Norræna hússins þá er það semsé til að vernda varpið fyrir fólki og fólk frá því að fá kríu í hausinn). Og þetta minnir mig allt í einu á ástarljóðasafnið Ást æða varps sem svo oft fékkst gefins með ólíklegustu hlutum að sennilega eignaðist ég í heildina fimm eintök (fyrir utan þau sem ég fann tilefni til að gefa), en nú veit ég ekki hvað orðið hefur um eitt einasta þeirra. Mig minnir þó að í bókinni hafi verið rómantískt ljóð eftir Óttar Norðfjörð um hnefa og rassgat. Það væri nú ekki ónýtt að finna þetta aftur til að rifja upp herlegheitin.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt.