Ég hef verið afar hugsi yfir umræðunni um fræðimanninn Reza Aslan undanfarið. En áður en ég vind mér í hana vil ég byggja undir hugleiðingar mínar með eftirfarandi atriðum (ég biðst velvirðingar á lengdinni og afsaka það ef lesendum leiðist að ég skuli endurtaka sumt sem þeir þegar vita):
Aslan (fyrir utan að vera flott nafn, sem allir sem hafa einhverju sinni alist upp vita að merkir ljón, eða tengja a.m.k. við ljón) er með fjórar háskólagráður. Þrjár af þeim skipta máli fyrir þessa umræðu: Hann er með B.A.-próf í trúarbragðafræðum (religion), M.A.-próf í guðfræði og almennri trúarbragðafræði (theological studies), og doktorspróf (Ph.D.) í trúarlífsfélagsfræði (sociology of religion), allt frá virtum háskólum. Það þýðir ekki nauðsynlega að Aslan sé góður rannsakandi, en það þýðir þó það að hann er sérfræðimenntaður á sviði trúarbragðarannsókna.
Hann er fæddur í Íran en fluttist á barnsaldri ásamt foreldrum sínum til Bandaríkjanna sem flóttamaður, þar sem hann tók upp kristni. Hann snerist síðar aftur til íslam og það er annað aðalatriðið af tveim í þessari umræðu. Sem kunnugt er skrifaði Aslan bók sem þegar í titlinum gefur í skyn að Jesú frá Nasaret hafi verið ofstopamaður, og fyrir það réðist Lauren Green á ofstopastöðinni Fox á hann og fékk það, sem frægt er orðið, óþvegið tilbaka.
Þetta eitt lygilegasta sjónvarpsviðtal síðustu ára hefur skiljanlega kallað fram þónokkra þórðargleði í fólki, en einnig þau viðbrögð frá trúleysingjum (þótt einn skrifi hef ég það í fleirtölu því ég sé marga taka undir) að þó að árásin á Aslan hafi verið óverðskulduð þá hafi hann sjálfur verið ósanngjarn í garð – ef ekki hreinlega fávís um – trúleysi sem lífsafstöðu. Svo er áreiðanlega til allur fjöldinn af annars konar viðbrögðum sem ég hefði ekki geð í mér til að kanna til hlítar.
Ég rakst einnig á annað sjónarhorn og það er fyrst og fremst það sem ég hef áhuga á að bregðast við vegna þess að það snertir mig sjálfan sem rannsakanda (meðal annarra hluta) trúarbragða. Minn ágæti kunningi og samdoktorskandídat um Vatnsmýrina, Höskuldur Ólafsson, spurði nefnilega:
Hér er fræðimaður sem er einnig trúaður múslimi að halda fram ákveðinni kenningu um guð kristinna manna. Spyrillinn, sem starfar fyrir íhaldssama (kristilega) sjónvarpsstöð spyr eðlilegra spurninga í því trúarlega og menningarlega samhengi. Hvað er skrítið við þetta viðtal annað en að fræðimaðurinn reynir að gera það að aukaatriði að hann aðhyllist trú sem afguðar þann sem hann er að skrifa um?
Aðaldjúsið í því sem hann setur spurningamerki við er þó þetta:
Alltént, ég á erfitt með að trúa því að vísindamenn geti auðveldlega skilið hugmyndafræði sína við þröskuldinn þegar þeir stíga inná skrifstofuna.
Í fyrstu varð ég hissa á þessari skoðun en varð þó að viðurkenna að þetta er mikilvæg umræða, sem ég hef raunar átt í áður – síðast á miðaldaráðstefnu í Leeds þar sem rétttrúaður, gyðinglegur fræðimaður spurði mig í léttu hjali hvernig það eiginlega gengi fyrir sig að ég, trúlaus maðurinn, rannsakaði kristni á miðöldum (hans sérsvið er, vel að merkja, gyðingdómur á miðöldum). Ég lái honum ekki það að spyrja, en hann hóf heldur ekki samræðurnar á því að segja mér í óspurðum fréttum að Xur Xurssyni úti í bæ þætti ég vera ómerkilegur fúskari.
Svarið er ekki einfalt, en áður en ég kem að því vil ég nefna fleiri atriði til umræðunnar.
Ég hef ekki lesið bókina frekar en gagnrýnendur Aslans, svo ég ætla ekki að bera í bætifláka fyrir neitt sem þar kann að koma fyrir. Ég gat þó ekki skilið hann öðruvísi en svo að hann ynni útfrá þeirri megintilgátu að Jesús frá Nasaret hafi sannarlega verið uppi. Það þarf ekki að þýða annað en það að hafi hann verið til, þá sé hægt að bera saman heimildir um hann við sögulegar heimildir frá sama tíma. Eina dæmið sem hann nefnir um vinnubrögð sín í sjónvarpsviðtalinu er einmitt þess eðlis (að hafi Jesús verið krossfestur í reynd, þá séu til heimildir frá Rómverjum um það hvers konar glæpamönnum var refsað þannig) og það þykir hreint út sagt ekkert óeðlilegt við að viðhafa slík vinnubrögð í trúarsögulegum eða sagnfræðilegum rannsóknum.
Aslan er hinsvegar ekki gagnrýndur fyrir rannsóknina heldur fyrir að kalla Jesú ofstopamann (zealot), sem raunar þarf ekki mikið hugmyndaflug til að hafa yfir mann sem samkvæmt heimildum var áhrifamikill safnaðarleiðtogi sem opinberlega gekk í berhögg við ríkjandi skipulag síns tíma. Og Aslan er vitaskuld langt því frá fyrstur til að gera það þó að ég muni raunar enga titla; ég hef ekki lesið um efnið í ein sjö ár en ég get rifjað eitthvað upp ef einhver gengur á mig.
Reyndar er svo lítið nýnæmi í þessari bók af útlitinu og umræðunni að dæma (hið fyrra er að sönnu slæmur mælikvarði en hið síðarnefnda gefur á hinn bóginn til kynna að það sé ekki bókin sem er vandamálið) að ég fæ ekki séð að málið snúist um neitt annað en það að það angrar sumt kristið fólk í Bandaríkjunum að múslimi, samlandi þeirra eður ei, skrifi bók um Jesú sem tekur til endurskoðunar þær túlkanir á honum sem birtast í guðspjöllunum. Sem þýðir aftur að fullkomlega hefðbundin nálgun á afar flóknar heimildir hefur nú ýtt undir umræðu um innbyggða fordóma (implicit bias), að „sú hugmyndafræði sem maður aðhyllist sé að hafa áhrif á þá rannsókn sem maður stundar og þ.a.l. á niðustöðuna“. Mér finnst þetta vera svolítið stökk en það er á hinn bóginn greinilegt að þetta er umræða sem verður að taka. Og ég tek það fram að ég er á margan hátt sammála Höskuldi um flest það sem hann nefnir (nema kannski helst það að spurningar Lauren Green hafi verið sanngjarnar eða eðlilegar – þær voru a.m.k. fyrirsjáanlegar), þó að mitt sjónarhorn sé að vísu töluvert frábrugðið.
Hvernig gæti ég hlutleysis í mínum rannsóknum? Hvernig hindra ég það að hugmyndafræðin vefjist fyrir fótum mér? Fyrst um hlutleysi: það er auðvitað ekki hægt vera hlutlaus og það vita allir sem fást við vísindi að það er frekar lítið sem vinnst með því að ræða þann ímyndaða möguleika. Það er ekki einu sinni hægt að vera hlutlaus raunvísindamaður, því jafnvel ef hægt væri að taka vísindamanninn út úr myndinni þá eru mælitækin ekki hlutlaus heldur eru þau óhjákvæmilega aðeins túlkandi fyrir veruleikann sem þau eiga að mæla. Það þýðir ekki að niðurstöðurnar verðir rangar; þær geta verið réttar en þær eru háðar því kerfi sem mælt er eftir, og öll kerfi eru túlkandi hvert með sínum hætti. Málið vandast þó enn frekar þegar gögnin sem mæla á eru textar og aðalmælitækið er tungumálið, sem hvorki er raunsönn né hlutlaus lýsing á veruleikanum nema að svo miklu leyti sem við höfum ákveðið að tiltekin tákn merki tiltekna hluti, og þar með komið fyrir túlkun á veruleikanum fyrir innan hugtakakerfis sem aftur er í mismiklum mæli breytilegt ekki aðeins á milli þjóða, heldur jafnvel á milli einstakra málhafa (Saussure, fo sure). Þar að auki erum við sem rannsökum forna texta jafnan félagslega, þjóðfélagslega, trúarlega og hugmyndafræðilega aðskilin frá höfundi textans og hugsun hans, fyrir utan svo allar aldirnar sem skilja okkur að einnig: við erum í reynd að rannsaka framandi menningarheima. Til þess að skilja texta þarf því fyrst að skilja samfélagið sem textinn sprettur upp úr, og það verður ekki gert nema með áralöngum rannsóknum þar sem við gerum okkar ítrasta til að skilja ekki veruleikann nema á forsendum þeirra texta sem til umfjöllunar eru.
Ég ætla ekki að halda því fram að það sé auðvelt, en krafan verður þar af leiðandi sú að við reynum að leggja okkur sjálf til hliðar svo sem okkur framast er unnt þegar við rannsökum (í þessu tilviki) forna texta; að við reynum að túlka þá ekki í ljósi allrar þeirrar sögu og vitneskju sem orðið hefur til síðan þeir litu dagsins ljós. Við viljum komast nálægt heimsmynd þeirra sem rituðu textana, hugmyndafræði þeirra og trúarlífi. Aðalmálið er að ég held að Reza Aslan sé bæði fullvel meðvitaður um að sú krafa er gerð til hans, og að í einhverjum tilvikum þá mistakist honum að halda sjálfum sér frá þeim heimildum sem hann er að rannsaka. Slíkt gerist og fyrir það eru fræðimenn gagnrýndir. Enginn hefur hinsvegar gagnrýnt hann fyrir það, heldur hefur hann verið gagnrýndur vegna möguleikans á því að hann hafi vegna trúar sinnar fokkað upp verkinu því sem múslimi sé hann haldinn fordómum í garð kristni. Þessi gagnrýni kemur fyrst og fremst frá bókstafstrúarfólki.
Hvað hugmyndafræðina áhrærir þá er ég ekki viss um hvernig ég geti svarað því. Ég trúi ekki á máttarvöld, æðri eða lægri, en þó er ég afar áhugasamur um trúarbrögð. Það er að segja: ég er áhugasamur um virkni trúarbragða. Með virkni þá meina ég það hvernig fólk upplifir lífið í trúnni og heiminn umhverfis sig. Og til þess að geta rannsakað trúarlíf fólks á miðöldum þá þarf ég að bera fyrir því virðingu, og með því að lesa sem flesta trúartexta (og aðra texta) frá miðöldum þá kemst ég nær skilningi á því hvaða hugmyndafræði mótaði líf fólks á því tímaskeiði sem rannsókn mín nær til.
Þegar ég fjalla um sköpunarsöguna þá skiptir mig ekki máli hvernig mér lærðist hún í barnaskóla, heldur hvernig hún birtist mér í Veraldarsögu, í Hauksbók, í Stjórn, í Elucidarius, í annálum; ég reyni að rannsaka sameiginleg þemu en þó sérstaklega það sem út af stendur svo ég hafi sem fjölbreyttasta mynd af þeim trúarhugmyndum sem voru í umferð á Íslandi. Ef einhver telur mig verri rannsakanda fyrir það að ég trúi ekki á téða sköpunarsögu þá áttar viðkomandi sig kannski ekki á því hvað sú sköpunarsaga er þýðingarmikil í sögu vestrænnar menningar – það skiptir mig ekki máli hvort hún er sönn eða ekki, ég get rannsakað ólíkar gerðir hennar fyrir því og borið virðingu fyrir því fólki sem lagði líf sitt í hendur ókunnum krafti sem það nefndi Guð.
Ég rek ekki söguna aftur á bak og ég legg mikið upp úr því að þvinga ekki hugmyndafræðilegar stærðir upp á menningarheim sem sjálfur hefði ekki skilið þær. Það kemur m.ö.o. ekki til greina, fyrir mig (og veit ég að margir eru mér afar ósammála), að ég retróaktíft troði Freud, Marx, eða öðrum þvílíkum kenningakerfum upp á heim miðaldafólks. Ég segi ekki að það sé rangt að gera það, heldur að ég vilji komast sem næst því að skilja miðaldafólk á þess eigin forsendum. Miðaldirnar reyni ég því – eftir fremsta megni – að nálgast út frá ríkjandi skilningi þess tíma. Raunar snýst rannsóknarefni mitt að hluta til um það að sjá að hversu miklu leyti ríkjandi skilningur í Evrópu náði til Íslands.
Það geri ég auðvitað ekki fordómalaust – það getur enginn. Og nú veit ég ekki hvernig Aslan vinnur sína bók en ég hygg miðað við hans feril hingað til að hann hafi aldrei orðið fyrir eins alvarlegum ákúrum einsog núna. Sem hann verður fyrir vegna þess að hann er múslimi. Það eru ábyggilega hundrað atriði í bókinni hans sem ég tæki ekki undir og þættu ekki tíðindi til næstu hugvísindadeildar.
Ég held að við séum öll meðvituð um að við stýrumst í okkar rannsóknum af einhverjum hvötum – og af miklum ákafa, því annars hefðum við aldrei enst í þessu – og rannsóknir gefa nú til kynna að fordómar okkar stjórna hugsunum okkar á enn dýpra borði en okkur hafði órað fyrir. Mér finnst það þó ekki réttlæta gagnrýnina. Hefði Lauren Green hafið viðtalið á því að spyrja Reza Aslan um þá gagnrýni sem hafi verið sett fram, að hann sem múslimi væri ef til vill ekki besti aðilinn til að skrifa um Jesú, og látið þar við sitja eftir að svarið var komið, þá hefði það verið spurning í lagi. En það eina sem hún gerir í gegnum allt viðtalið er að vitna aftur og aftur í nýjan og nýjan karl sem fæstir hljóma einsog þeir hafi lesið bókina og spyrja hvernig hann bregðist við þessu. Hún hafði ekki lesið bókina og hún hafði engar aðrar spurningar; hún hafði einfaldlega ekki áhuga á öðru en að reyna að koma höggi á hann, og það mistókst.
Og upp úr þessu spretta í reynd tvær umræður: Ef líkur eru á að Aslan hafi annað hvort viljandi reynt að koma höggi á kristni með bókinni, eða á hinn bóginn stjórnast af fordómum, þá er sennilega besta leiðin til að afhjúpa hann að lesa bókina. Það hefur hinsvegar enginn gert og því veit ég ekki hvort við komumst neitt lengra áfram með þá umræðu í bili. Hin umræðan sem mér þykir áhugaverðari og mikilsverðari fjallar um það hvernig við sem rannsökum trúarbrögð getum gætt hlutleysis í okkar skrifum. Það getum við einfaldlega ekki nema að takmörkuðu leyti og því tek ég að sjálfsögðu undir það að við þurfum öll að vera meðvituð – ekki endilega um fordóma okkar – heldur um það að við höfum fordóma.
Þó að Aslan gremjist (að mínu viti skiljanlega) að vera spurður svona, og þvertaki fyrir það í vörn fyrir starfsheiður sinn, þá efast ég ekki um það að hann sé þess alveg meðvitaður að hann búi yfir fordómum rétt einsog aðrir, alveg einsog ég og alveg einsog rétttrúaði gyðingurinn sem rannsakar gyðingdóm á miðöldum. Þannig sýnist mér umræðan um fordóma fræðimanna yfirleitt benda í þá átt að umræðan um fordóma Aslans sérstaklega hafi verið ósanngjörn, því hver svo sem trúarleg afstaða fræðimannsins er þá erum við öll sem rannsökum trúarbrögð undir sömu sökina seld: við erum öll jafn ótrúverðug og Aslan, á alveg sama hátt og rannsakendur einkum og sér í lagi í félags- og hugvísindum gætu látið hugsjónir sínar og pólitík hafa áhrif á rannsóknir sínar.
Og það er fullkomlega valid umræða, að fræðimenn geti verið litaðir af lífsviðhorfum þó að þeir eigi eftir fremsta megni að forðast að vera það. En við getum ekki gengið að því a priori að allir vísindamenn með skoðanir láti stjórnast af þeim og það er það sem mér fannst umræðan fyrst og fremst snúast um, eða þangað til mér varð ljóst að hún hafði klofnað svona rækilega í tvennt. Þetta er ekki málsvörn fyrir Reza Aslan heldur fyrir sjálfan mig og okkur öll, og ef til vill mætti draga saman niðurstöður minna hugleiðinga um efnið svona:
1. Við lifum á tímum þegar rannsóknir fræðimanna eru iðulega dregnar í efa og gerðar tortryggilegar í pólitískum tilgangi sökum ætlaðra annarlegra hvata þeirra. Þetta er ekki síst algengt í íslenskri umræðu eftirhrunsáranna.
2. Sú bylgja reis hæst það ég hef séð þegar órökstuddar blammeringar voru látnar dynja á Reza Aslan í sjónvarpinu. Ekki fyrir að hafa skrifað tortryggilegt rannsóknarverk, heldur fyrir það að vera múslimi. Þessa taktík mætti kalla skip the middle man: það er óþarft að tortryggja verkið þegar höfundurinn er sjálfur tortryggilegur.
3. Ef við hinsvegar föllumst á að þessar blammeringar hafi verið réttmætar, þá þurfum við að líta í eigin barm og átta okkur á því að allar réttmætar ástæður þess að stilla Reza Aslan svona upp við vegg hljóta að eiga við alla fræðimenn, alstaðar og á öllum tímum. Þó að umræðan geti ef til vill skilað okkur eitthvert áfram er ég ekki reiðubúinn að fallast á slíka niðurstöðu.
Kristinn maður í dag er álíka langt frá frumkristni og múslimi. Kristnir menn í dag eru flestir meira og minna trúlausir á heimsmynd miðaldakristni. Ef maður ætti að ganga skrefi lengra þá eru guðspjöllin hver með sína sýn á Jesú og tala fyrir mismunandi kristni (og engin af þeim trúarhugmyndum er áberandi í dag). Þegar maður skoðar skrif guðfræðinga í dag sem eru að skoða guðspjöllin sér maður alveg ótrúlega oft að þeir eru fyrst og fremst að reyna að finna þar stuðning fyrir sinni trú frekar en að reyna að skilja hverjar trúarhugmyndir þessara samfélaga hafi verið.
Annars þótti mér Reza fyrst og fremst kjánalegur þegar hann var að endurtaka í sífellu hvaða háskólagráður hann væri með.
Ég tek undir hvert orð. Mér brá þegar hann vippaði fram doktorsgráðunni þegar í fyrsta svari en fannst á hinn bóginn dásamlegt hvað það sló hana út af laginu. Hefði hún verið betur undirbúin þá er ósennilegt að hann hefði komist upp með kennivaldsrökin.