Miði til Kaupmannahafnar

Ég á flugmiða til Kaupmannahafnar. Slíkir flugmiðar, þótt þeir kosti ekki (rosalega) mikið, eru með því dýrmætasta sem ég veit. Miði til Kaupmannahafnar er ekki aðeins aðgöngumiði að þriðja heimalandinu, heldur að vinum, kunningjum og samstarfsfólki hér og þar í Danmörku sem ég hitti sjaldnar en ég vildi.

Í Kaupmannahöfn verð ég í þrjá mánuði að rannsaka miðaldahandrit, eitt af þessum sem menntamálaráðherra man eftir þegar hann þarf að semja ræðu en lætur þess utan sem hann kannist ekki við. Ótrúlegt að honum sé enn boðið að halda þær.

Þeim sem vilja kynna sér hvaða handrit ég ætla að rannsaka er bent á bls. 92–95 í bókinni 66 handrit úr fórum Árna Magnússonar, einkum á fallegu opnumyndina á bls. 94–95. Þetta er (meðal annars efnis) veraldarsaga frá 14. öld. Það vita það fáir en veraldarsögur eru með merkilegustu bókum sem til eru. Þeir sem vilja vita hvað Snorri Stull og höfundar Íslendingasagna héldu um heiminn ættu að byrja á að lesa veraldarsögu.

Þetta er ekki allt sem ég ætla að skoða, en það helsta.

Í Árnasafni úir og grúir af ómetanlegum gömlum bókum sem búa yfir ótal leyndardómum um löngu horfna tíð. Ég finn oft fyrir virðingarleysi gagnvart þessum viskuauð, ekki síst hjá þeim sem fara með æðstu yfirstjórn menningar- og menntamála í þessu landi. Hefði bókunum ekki verið bjargað í brunanum í Kaupmannahöfn forðum mætti líkja missinum við hið glataða bókasafn í Alexandríu, bara á smærri kvarða.

Íslendingar komust ansi nærri því að verða sögulaus þjóð. Kannski ekki síst þess vegna eru Íslendingar margir mjög áhugasamir um eigin sögu. Vandinn er kannski helst sá að flestir telja sig þekkja hana til hlítar þegar við vitum í raun sáralítið, að Árnastofnun sé minjasafn en ekki rannsóknarstofnun, og að óþarfi sé að veita peningum í handritin því þau verði alltaf til — sem þau verða einmitt ekki. Þekkingin verður heldur ekki alltaf til. Hún hverfur með vísindafólkinu. Vísindafólkið hverfur þegar peningarnir hverfa.

Ég hef rannsakað miðaldatexta á eigin kostnað síðustu árin og varið til þeirrar iðju fjárhæð sem talin verður í nokkrum milljónum króna. Ég hef ekki efni á því út starfsferilinn.

Nú á ég miða til Kaupmannahafnar þar sem mér verður í fyrsta skipti á ævinni beinlínis borgað fyrir rannsóknir fremur en að ég snari því úr eigin vasa. Það verður tilbreyting. Fyrir margt löngu hafði ég orðið mér úti um litla íbúð á góðum stað í borginni. Það verður einmanalegt án Eyju og stelpnanna, en ég hlakka engu að síður til. Þeir sem ekki sjá spennuna í því að fletta skinnhandriti frá 14. öld er einfaldlega fólk handan míns skilnings.

One thought on “Miði til Kaupmannahafnar”

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *