Marga daga í röð hef ég rekið augun í Bjarnfreðarson á DVD, haganlega útstilltum og á misgóðu verði. Svona freistingar stenst ég bara einfaldlega ekki og keypti myndina í dag. Ef eitthvað er kalla ég mig góðan að hafa haldið í mér svona lengi fremur en hitt, þetta er enda efni sem á (vonandi) eftir að breyta íslenskri kvikmyndagerð til hins betra á næstu árum. Það er ótalmargt sem gerir Vaktirnar áhugaverðar og mig langar hér að nefna eitt atriði sem ég hef ekki orðið mikið var við í gagnrýninni umræðu um þættina.
Í Vaktaþáttunum sjáum við persónurnar nær aldrei stíga útfyrir sinn afmarkaða lókal, sem fær mann til að velta fyrir sér hvernig þeir félagar hegði sér í sínu náttúrlega umhverfi, svo að segja. Í Næturvaktinni eru þeir alveg afmarkaðir við bensínstöðina, planið og sjoppuna á bakvið, og yfirgefi persóna svæðið vitum við ekki af afdrifum hennar á meðan. Í Dagvaktinni er svæðið skilgreint víðar en þó með sínum takmörkunum, til dæmis nær það yfir örfáa bæi í nærsveitinni auk Hótels Bjarkalunds. Fangavaktin gerist öll meira eða minna inni á Litla Hrauni, með einni veigamikilli undantekningu þó.
Það er oft talað um fjórða vegginn í leikhúsi sem er það sem aðgreinir leikendur frá áhorfendum, og þegar hann er rofinn verða áhorfendur – hvort sem þeir vilja eða ekki – hluti af leiksýningunni. Í Nætur- og Dagvöktunum helst þessi rýmisaðgreining alveg. Hannes Hólmsteinn, Birgitta Haukdal, Bergþór Pálsson og Stefán Hilmarsson eru öll hluti af þeim heimi sem þættirnir gerast í, og það er auðvelt að rökstyðja hvers vegna. Birgitta er til að mynda frænka Ólafs Ragnars í þáttunum og þótt þjóðþekktir leikarar á borð við Benedikt Erlingsson birtist sem einhverjir Jón úti í bæ truflar það ekki veruleika persónanna. Þannig geta Halldór Gylfason sem Kiddi Casio og Hannes Hólmsteinn vel þrifist innan sama rýmis án þess það sé grunsamlegt og Ólafía Hrönn getur í hlutverki hótelstýrunnar Guggu vísað Björk á klósettið án þess að síðarnefndu þyki það neitt skrýtið að Ólafía Hrönn vinni á hóteli.
Georg Bjarnfreðarson er persóna sem sköpuð er úr verstu staðalmyndum um sósíalista sem til eru og kvikmyndin Bjarnfreðarson gerir sitt ítrasta til að vinna úr þeim efnivið, með alveg sprenghlægilegum en jafnframt sorglegum niðurstöðum; hún er saga af því hvernig fallegt barn verður að trufluðum manni. Útlitslega er hann svo mótaður eftir Lenín og sumpart Steingrími J. Sigfússyni og, alls ekki síst, hugmyndum ýmsra um Steingrím. Það var nokkuð grín gert að því að í Kryddsíld 2008 líkti einhver Steingrími við Georg Bjarnfreðarson, og hann svaraði því til að hann gæti nú eiginlega ekki svarið það af sér þar sem hann þekkti ekki þann ágæta mann.
Þetta er afskaplega mikilvægt atriði, því án þess missir merkilegasti hluti Fangavaktarinnar alveg marks og verður einsog handahófskenndur útúrdúr frá annars þéttri atburðarás. Það er þegar Georg fær bréf sent inn á Litla Hraun, sem hann segir – og takið eftir fyrirvaranum – að sé boð til hans persónulega um að halda ræðu á landsfundi Vinstrigrænna. Það eitt og sér þarf ekki að vera svo skringilegt innan veruleika þáttanna, við hlæjum altént að þessu, en einhvernveginn trúum við því ekki alveg.
Enda kemur það á daginn að þegar Georg brýst útúr fangelsinu þar sem hann fær ekki leyfi til að sækja landsfundinn, og nær til Hveragerðis með lögregluna á hælunum, þá þekkir Steingrímur hann ekki og kannast ekki við að hann sé á dagskránni með einhverja drottningarræðu (enda tíðkast slíkar ræður ekki innan almennra fundahalda). Steingrímur kannast ekki einu sinni við móður Georgs, Bjarnfreði Geirsdóttur, einhverja virtustu og þekktustu kvenréttindabaráttukonu landsins – samkvæmt Georgi sjálfum – þá ágætu konu þekkir hann ekki (takið eftir orðalaginu). Í lokaatriði Bjarnfreðarsonar fáum við hinsvegar staðfestingu á því að Bjarnfreður er sannarlega þekkt og virt innan kvennahreyfingarinnar, og því er undarlegt að Steingrímur skuli ekki kannast við hana.
Nema hann sé að ræða við skáldaða persónu. Myndmálið er svo sannarlega nógu skýrt: Georg brýst útúr afmarkaða rými þáttanna, fangelsinu, með ræðu í höndunum á leið á raunverulegan landsfund sem honum var sannarlega ekki boðið á, og brýtur fjórða vegginn. Hann er skyndilega staddur í heimi þar sem móðir hans Bjarnfreður er ekki þekkt baráttukona og boðskort Vinstrigrænna hefur enga merkingu. Hvers vegna dreg ég þá hæpnu ályktun að meðan Hannes, Birgitta, Björk og Stefán eru öll stödd innan sama veruleika og Georg sé Steingrímur það ekki? Vegna þess að þetta stutta atriði er svar við ummælum Steingríms í Kryddsíldinni árið á undan. Allt skírskotar beint til þess, og fyrst erfitt er ef ekki ómögulegt að toga veruleikann nær skáldskapnum (einsog Sylvía Nótt gerði), þá brýst hinn skáldaði Georg útí heiminn með ræðu handa Vinstrigrænum. En honum bregst bogalistin vegna þess að heimurinn viðurkennir ekki að hann sé til, og svo er hann færður í járnum aftur til síns heima.
Nú hefur hinsvegar svo merkilega atvikast til að sá sem lék Georg Bjarnfreðarson, Jón Gnarr, er í framboði til borgarstjórnar. Jón hefur undanfarin fimmtán ár helst verið þekktur fyrir gamanleik auk nokkurra kaþólskra viðhorfspistla sem jöðruðu við gamanleik, og framboð hans og fleiri listamanna til borgarstjórnar er að langflestu leyti litað af því sem við höfum spurt af Jóni áður. Í hlutverki Georgs skopstældi hann heldur heimdallarlega útgáfu af vinstrimanni en í hlutverki frambjóðandans skopstælir hann hinsvegar hina hefðbundnu pólitísku orðræðu, eins leiðinlegt og það annars er að nota orð einsog orðræða, og lofar fáránlegum hlutum komist hann til valda.
En nú þegar Jón á góðan möguleika á að verma borgarstjórasætið hlýtur sú hugsun að hvarfla að okkur að mögulega séu Reykvíkingar að kjósa yfir sig Georg Bjarnfreðarson, ef Jón tæki upp á því að láta sér vaxa skegg og raka af sér hárið á nýjan leik. Hugsið málið. Það er í alvörunni fátt því til fyrirstöðu að Georg Bjarnfreðarson standi á haustdögum í pontu í ráðhúsinu organdi um kosti upptökuheimila. Ég segi ekki að það yrði ófyndin uppákoma fram að svona fimmtu mínútu, heldur hitt að þarmeð væri rýmisaðgreining veruleikans og Vaktanna endanlega horfin. Það væri stórfenglegt afrek.
Hitt er svo annað að Georg er fluttur til Bandaríkjanna og er orðinn öllu rólegri í tíðinni. Það segir mér að í raun séum við bara að fá Jón Gnarr, og það eitt og sér finnst mér svosem alveg nógu skrýtin tilhugsun.
– Birtist endurskoðuð á Kistunni þann 28. maí 2010.
Við nánari aðgæslu hefur mig misminnt, orðalagið er ekki það sama, og Steingrímur gefur aðeins til kynna með viðbrögðunum að hann kannist ekki við Bjarnfreði.