Ég fór óvart að fantasera á Facebook um að eignast fræðilega útgáfu á Biblíunni. Best væri ef Hið íslenzka bókmenntafjelag stofnlegði ritröðina Erlend fornrit að fyrirmynd Íslenzkra fornrita. Þess í stað höfum við þýðingar Lærdómsritanna, sem að ósekju mætti gera að hardkor fræðilegri útgáfu án þess að almennir lesendur yrðu nauðsynlega fældir frá.
Og nógu déskoti oft hefur Biblían líka verið gefin út og látið með hana einsog hún sé einhver fastur texti. En þannig er það auðvitað ekki. Ef ég ætla að vitna í Biblíuna þá get ég ekki tekið íslensku þýðinguna frá 2007 og fært hana aftur um eitt einasta ár; hún er aðeins nothæf í Biblíutúlkun eftir útgáfuár sitt, það leiðir af sjálfu. Að sama skapi verður King James Biblían ekki til fyrr en snemma á 17. öld svo ég get ekki stuðst við hana í umfjöllun um 13. öld. Vúlgatan verður til seint á 4. öld, á 13. öld er hún orðin opinber Biblía Rómversk-katólsku kirkjunnar og hún er enn gríðarlega mikilvæg seint á 16. öld. Hafi maður áhuga á kristni á miðöldum þá les maður semsagt Vúlgötuna.
Í fljótu bragði sé ég ekki að nein fræðileg útgáfa af Vúlgötunni sé til á Landsbókasafni, og raunar sé ég ekkert á víðáttum internetsins heldur, að minnsta kosti ekki með skýringum. Ég leita þá bara svara annarsstaðar við þessari gátu:
Biblia Sacra Vulgata:
et nomen fluvio secundo Geon ipse est qui circuit omnem terram Aethiopiae
Paradís er staðsett í heiminum með því að fjórar ár sem renna í gegnum hana eru nefndar. Ána Geon eða Gíhon hefur ekki tekist að staðsetja með fullnægjandi hætti, en athygli vekur að í Vúlgötunni og í King James er hún sögð vera í Eþíópíu:
King James Version:
And the name of the second river is Gihon: the same is it that compasseth the whole land of Ethiopia.
Sem getur ekki verið því Paradís lá í austri í heimsmynd miðalda, í Asíu en ekki í Afríku. Auk þess eru Tígris og Efrat tvær hinna ánna sem renna um Paradís og þær eru báðar í Mesópótamíu, eða í Írak svona í grófum dráttum. Í nútímaútgáfum er Gíhon því sögð renna um Kúsland sem sumir hafa viljað finna stað við landamæri Pakistan og Afganistan nútímans:
English Standard Version:
The name of the second river is the Gihon. It is the one that flowed around the whole land of Cush.Biblían (1915):
Önnur stóráin heitir Gíhon. Hún fellur um allt Kúsland.
Á Eþíópíunafninu hef ég ekki skýringu (hún er ábyggilega einföld), en á hinn bóginn hef ég aldrei handleikið Biblíu sem einu sinni nefnir það að ekki beri öllum gerðum Biblíunnar saman um þetta, hvað þá önnur og flóknari atriði sem oss dauðlegum er djöflinum erfiðara að komast að sjálfir. Það þýðir ekki að sú Biblía sé ekki til, bara að ég hef ekki fundið hana. Hér með auglýsi ég eftir krítískri útgáfu á Biblíunni með rækilegum inngangi sem tekur á textafræðilegum forsendum útgáfunnar og málfræðilegum og guðfræði þess tíma sem útgáfunni er ætlað að endurspegla, formála að öllum bókum, gommu af neðanmálsgreinum og orðskýringum í meginmáli og nafna-, orða- og heimildaskrá aftast. Og meira til.
Og þetta bið ég um án þess að finnast Biblían einu sinni neitt sérlega skemmtileg. Ef þetta er til einhversstaðar þá held ég að mörgum væri gagn í að vita um það.