Star Trek VI: The Undiscovered Country er síðasta myndin í flokknum sem hefur áhersluna á “gömlu kynslóðina”. Stjörnusambandið og Klingonarnir eru að reyna að semja frið, Kirk er vantrúaður. Einhver reynir að spilla friðinum og Kirk lærir dýrmæta lexíu, í lok myndarinnar klappa allir.
Myndin er frá 1991 og inniheldur ótal vísanir í fall Sovétríkjanna (Klingonarnir). Þetta er líka síðasta myndin sem Gene Roddenberry sá því hann dó innan tveggja sólahringa (og það var ekki af því honum þótti myndin svona vond). Myndin er mjög fín á Star Trek mælikvarða.
Fjöldinn allur af skemmtilegum leikurum kemur þarna fram, Kim Cattrall úr Beðmál í Borginni kemur þarna fram (og var víst mynduð fáklædd á sviðsmyndinni), Christopher Plummer leikur óþokka og Christian Slater kemur örstutt fram. Hlutverk Kim Cattrall náði meiraðsegja að réttlæta fyrir Eygló að horfa á smá bút úr myndinni, kannski að aðrir aðdáendur Beðmálanna vilji sjá þessa mynd því hvergi annars staðar geturðu séð Sam sem Vúlkana (nema hugsanlega í einhverju af þeim afbrigðulegu kynlífsatriðum sem koma fram í Beðmálunum).
Þetta minnir mig reyndar á skemmtilega sögu um Slater. Einsog þið munið kannski eftir hefur hann hálfskrýtnar augabrýr, ástæðan fyrir þeim er ást hans á Star Trek. Þegar hann var lítill lék hann Spock á Hrekkjavökunni bandarísku og rakaði augabrýrnar sínar til að líkjast hetjunni, þær hafa aldrei náð sér eftir það.
Búningarnir eru þessir klassísku lélegu 80s hljómsveitabúningar.
William Shatner á stjörnuleik í einu atriðinu með hjálp tæknibrellufólksins, rassinn á honum var minnkaður að hans ósk og því lítur hann einu sinni í myndinni út fyrir að vera eins böff og í Star Trek I. Í öðru atriðinu kemur Shatner tvöfalt fram og því leikur hann tvöfalt verr en vanalega.