Hvar eru raunvísindamennirnir Egill?

Í stað þess að fá raunvísindamann til að útskýra fyrir okkur hvað er rétt og rangt í umræðunni um hnattræna hlýnun þá hefur Egill Helgason náð að draga upp fyrrverandi breskan ráðherra. Sá er á þeirri skoðun að við ættum ekkert að reyna að koma í veg fyrir loftslagbreytingar heldur bara reyna að bregðast við áhrifunum. Væntanlega með því að kaupa stuttbuxur. Forsendurnar sem hann setur sér eru reyndar fyrst og fremst efnahagslegar og hafa verið mikið gagnrýndar. Gaurinn kom víst líka fram í The Great Global Warming Swindle sem Egill var voðalega hrifinn af þó að hún miklu vitlausari en bæði meintar og raunverulegar ýkjur Al Gore.

Er Egill Helgason ekki bara einfaldlega að reyna að fela skoðun raunvísindamanna?

0 thoughts on “Hvar eru raunvísindamennirnir Egill?”

 1. Ég hef aldrei séð Global Warming Swindle.

  Svo er ég með þátt sem fjallar um stjórnmál, ekki vísindi.

  Það mætti síðan mæla þetta í útsendingartíma og dálksentimetrum hvaða skoðanir í loftslagsmálum fá mest pláss: Gore-fræðin eða hinar lágværu efasemdir.

 2. Ég hef þig greinilega fyrir rangri sök með Swindle. Sé það núna þegar ég gúggla það. Fyrirgefðu það.

  Það er afburða kjánalegt að tala um Gorefræðin. Þetta er bara rökfræðitrikk. Það er nefnilega auðveldara að ráðast á Gore, og reyndar ljúga upp á hann, heldur en að hrekja niðurstöður vísindamannanna sem hann byggir á.

  Röksemdin um “efasemdarraddirnar” heyrist ekki jafn hátt og meirihlutaskoðun vísindamanna minnir mikið á kvartanir sköpunarsinna. En ef þú hefur mikinn áhuga á að fá skoðun fólks sem er í minnihluta og ekki mikið heyrist í þá geturðu boðið fulltrúa Vantrúar vikulega í þáttinn til að tala um trúarbrögð, kukl og gervivísindi sem eru óhóflega áberandi í öllum fjölmiðlum. Við höfum sérfræðinga fyrir öll tækifæri.

  Þú ert augljóslega að fara inn á svið vísindanna með því að tala um þessi mál og ættir að tala við vísindamenn um þau. Þeir eru ekkert áberandi í fjölmiðlum og yfirleitt eru skoðanir þeirra síaðar í gegnum fjölmiðlafólk sem lítið veit um raunvísindin.

 3. En Egill, spurningin hvort hlýnun sé af mannavöldum eða ekki er ekki pólitísk heldur vísindaleg. Ég skil því ekki hvers vegna vísindamenn fá ekki að tjá sig hjá þér.

  Næst þegar þú fjallar um efnahagsmál, ekki kalla í Þorvald Gylfason eða Gylfa Magnússon, hringdu frekar í Magnús Tuma Guðmundsson jarðeðlisfræðing og láttu hann tjá sig um “efasemdirnar” sem hann hefur gagnvart efnahagsstefnu Seðlabankans eða ríkisstjórnarinnar.

  Þetta er álíka vitlaust.

  Ég stóð í þeirri trú að þættir eins og Silfur Egils væru til þess gerðir að upplýsa fólk. Svo er greinilega ekki.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *