Mogginn og ég

Í fyrrihluta október sendi ég inn grein í 24 stundir þar sem ég gagnrýndi fullyrðingar séra Þórhalls Heimissonar um uppruna verndara Íslands sem sjást á skjaldarmerkinu. Það var síðasta tölublaðið sem kom út af því blaði en væntanlega er það bara tilviljun. Þremur dögum síðar fær Þórhallur birta grein í Mogganum þar sem hann endurtekur þær staðhæfingar sem ég hrakti í fyrstu greininni (grein Þórhalls var bara endurvinnsla af eldri greinum hans um efnið með villum og öllu). Ég sendi þá inn svar daginn eftir sem birtist rúmum þremur vikum seinna. Svar Þórhalls við þeirri grein birtist tveimur vikum seinna. Ég sendi svar inn þann 23. nóvember sem ekki hefur birst enn.

En þetta er ekkert met hjá Mogganum. Ég beið eitt sinn í sex vikur eftir að grein birtist sumarið 2006.

Þetta er ekki heldur met í snöggbirtingu greina Þórhalls hjá Mogganum. Í janúar 2006 var Þorsteinn Sch. Thorsteinsson að gagnrýna hina arfaslöku bók Þórhalls Hin mörgu andlit trúarbragðanna. Sú grein birtist í laugardagsmoggganum en svar Þórhalls birtist í sunnudagsmogganum. Fyrir þá sem átta sig ekki kemur sunnudagsmogginn út á laugardegi.

Þórhallur þyrfti því að hafa séð grein Þorsteins að morgni, skrifað eldsnöggt svar sem akkúrat var síðan pláss fyrir í blaðinu sem hefur líklega verið langt komið í uppsetningu. Líklegri tilgáta er að annað hvort hafi verið hliðrað sérstaklega til fyrir Þórhall eða einfaldlega einhver hjá Mogganum hafi sent honum grein Þorsteins áður en hún var birt svo hann gæti haft svargrein tilbúna.

Það er því spurning hvort að einhver hjá Mogganum hafi ekki einfaldlega lekið nýjustu grein minni í Þórhall og hann sitji nú sveittur að reyna að skrifa svar við henni til að hafa tilbúið (sem ætti að verða honum þrautin þyngri).

Annars er vandamál Þórhalls fyrst og fremst að hann er betri prestur en fræðimaður.

0 thoughts on “Mogginn og ég”

Leave a Reply